Með 122 nagla í maganum

Fjarlægja þurfti 122 nagla, fjórar nælur, tannstöngul og nokkur glerbrot …
Fjarlægja þurfti 122 nagla, fjórar nælur, tannstöngul og nokkur glerbrot úr maga mannsins. Ljósmynd/Thinkstock

Læknar í Eþíópíu fjarlægðu yfir hundrað nagla, auk annarra beittra hluta, úr maga sjúklings í höfuðborg landsins, Addis Ababa, um helgina. Skurðlæknir á St. Peter‘s-sjúkrahúsinu segir 33 ára gamla sjúklinginn glíma við andleg veikindi.

Að sögn læknisins mun sjúklingurinn hafa kyngt 122 tíu sentímetra löngum járnnöglum, fjórum nælum, tannstöngli og nokkrum glerbrotum.

„Sjúklingurinn hefur glímt við andleg veikindi í tíu ár og hætti að taka lyfin sín fyrir tveimur árum, sem er líkleg ástæða þess að hann hóf að innbyrða þessa hluti,“ segir Dawit Teare, sem framkvæmdi tveggja og hálfrar klukkustunda aðgerð á manninum til að fjarlægja aðskotahlutina úr maga hans.

Maðurinn mun líklega hafa kyngt hlutunum með hjálp vatns en hann telst heppinn að hafa ekki orðið fyrir meiri skaða þeirra vegna. Allir eru hlutirnir beittir og hefðu getað skorið maga hans og leitt til alvarlegra sýkinga og jafnvel dauða.

Teare segist áður hafa glímt við aðgerðir á borð við þessa, þar sem andlega veikir sjúklingar hafa kyngt hlutum, en aldrei hafa séð neitt á þessum skala. Að hans sögn er maðurinn á batavegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert