Sígarettuframleiðandi sakaður um hræsni

Talsmenn fyrirtækisins segja herferðina mikilvægt skref í áætlun þess efnis …
Talsmenn fyrirtækisins segja herferðina mikilvægt skref í áætlun þess efnis að hætta á endanum að framleiða sígarettur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einn stærsti sígarettuframleiðandi heims, Philip Morris, sem meðal annars framleiðir Marlboro-sígaretturnar, hefur verið sakaður um hræsni vegna nýjustu auglýsingaherferðar fyrirtækisins í Bretlandi sem hvetur reykingafólk til að hætta að reykja.

Talsmenn fyrirtækisins segja herferðina mikilvægt skref í áætlun þess um að hætta að framleiða sígarettur. BBC greinir frá.

Forsvarsmenn krabbameinsrannsókna í Bretlandi eru hins vegar efins um fögur fyrirheit framleiðandans og segja auglýsingaherferðina til þess gerða að fá fleiri til að kaupa aðrar tóbaksvörur sem Philip Morris framleiðir. Þá saka þau fyrirtækið um hræsni í ljósi þess að það hvetur enn til reykinga utan Bretlands.

„Besta leiðin fyrir Philip Morris til að hjálpa fólki að hætta að reykja er að hætta að framleiða sígarettur,“ segir George Butterworth hjá Cancer Research UK.

Þá hafa góðgerðarsamtök gegn reykingum gagnrýnt Philip Morris og segja herferðina leið framleiðandans til að sneiða fram hjá tóbaksauglýsingabanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert