Fleiri háskólar mismuna kvenkyns nemum

Menntamálaráðuneytið tók til skoðunar 81 japanskan háskóla á sviði heilbrigðisvísinda.
Menntamálaráðuneytið tók til skoðunar 81 japanskan háskóla á sviði heilbrigðisvísinda. AFP

Rannsókn japanskra stjórnvalda á mismunun við inntökupróf í háskóla landsins hefur leitt í ljós að mál Tokyo Medical University, sem lækkaði kerfisbundið einkunnir kvenkyns kandídata, er ekki einsdæmi. Þetta kemur fram í skýrslu menntamálaráðuneytis Japan, en þar er þó hvorki greint frá fjölda þeirra háskóla sem gerst hafa sekir um mismunun, né hvaða skóla er um að ræða.

Menntamálaráðuneytið tók til skoðunar 81 heilbrigðisvísindaháskóla, bæði opinbera og einkarekna. Í kjölfarið var farið í heimsóknir í 30 háskóla til þess að rannsaka inntökuferli þeirra betur.

Í ljós kom að óviðeigandi inntökuferli eru viðhöfð í nokkrum háskólanna, en þar var kvenkyns nemendum og þeim sem tóku inntökupróf í annað og þriðja skipti mismunað.

Sumum kvenkyns nemendum var neitað um skólavist þrátt fyrir að einkunnir þeirra í inntökuprófi hefðu átt að nægja til inntöku. Í öðrum tilfellum var börnum fyrrverandi nemenda gert hærra undir höfði en öðrum.

Menntamálaráðuneyti Japan segir að eins og er standi ekki til að refsa umræddum háskólum eða að afhjúpa nöfn þeirra, en skólarnir hafi verið beðnir um að gera grein fyrir athöfnum sínum. Endanleg skýrsla um rannsóknina verður gefin út í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert