Hvers vegna drap ljónynjan félaga sinn?

Nyack var alinn upp af mönnum, sem gæti hafa gert …
Nyack var alinn upp af mönnum, sem gæti hafa gert hann varnarlausari en ella. Ljósmynd/Indianapolis Zoo

Ljónynjan Zuri réðst á félaga sinn í dýragarðinum í Indianapolis í Bandaríkjunum til átta ára og drap hann í síðustu viku. Nyack var 10 ára gamall og óvenjuléttur af karlkynsljóni að vera. Atvikið hefur vakið mikla undrun meðal almennings, en ekki síður sérfræðinga sem segja atvik sem þessi ekki þekkjast meðal ljóna.

Breska ríkisútvarpið leitaði álita nokkurra sérfræðinga, sem allir voru sammála um að atvikið kæmi mikið á óvart. Árásir karlkyns ljóna á ljónynjur eru nokkuð algengar, auk þess sem hópar ljónynja hrekja karldýr stundum í burtu, en árás þar sem ein ljónynja ræðst á karlljón og drepur það þekkist ekki.

Mögulegir persónuleikaárekstrar

Craig Parker, yfirprófessor hjá ljónarannsóknardeild Minnesota-háskóla, segir að persónuleikar ljónanna gætu hafa spilað inn í, en meðal villtra ljóna hafa karlarnir alger völd yfir ljónynjunum. Nyack var alinn upp af mönnum, sem gæti hafa gert hann varnarlausari en ella, auk þess sem hann var aðeins ellefu kílóum þyngri en Zuri.

Parker segir að ef persónuleikaárekstrar hafa valdið árásinni þyrfti að taka slíkt til skoðunar þegar ljónum er haldið föngnum. Atvikið þykir honum einkar sérkennilegt í ljósi þess að þetta var í annað sinn sem Zuri réðst á Nyack, en í fyrra skiptið náði hann að flýja og varð undirgefinn ljónynjunni í kjölfarið.

Stóð Zuri ógn af Nyack?

Paul Funston, forstjóri náttúruverndarsamtakanna Panthera í sunnanverðri Afríku, segir hóp ljónynja stundum ráðast á karlljón til þess að verja ungana sína. Villt ljón eru þekkt fyrir að hrekja ungana á brott þegar þeir verða eldri til að tryggja yfirráð sín og að þeir séu einir með ljónynjunum sínum. Stundum drepa þeir jafnvel unga þegar þeir taka yfir ný yfirráðasvæði. Þá geta ljón orðið mjög árásargjörn og jafnvel drepið ljónynjur sem neita að maka sig. Ein skýring á atvikinu geti því verið að Zuri hafi stafað ógn af Nyack, en þau eignuðust þrjá ljónsunga saman árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert