Morð stöðvaði ekki fundarhöld

AFP

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Steven Mnuchin, átti fund með krónprinsi Sádi-Arabíu í Ríad í gær þrátt fyrir að líkur séu á að hann hafi átt aðild að morði í ræðismannsskrifstofu í Istanbul fyrr í mánuðinum.

Tyrknesk yfirvöld segja að sádiarabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu 2. október. Í fyrstu neituðu yfirvöld í Sádi-Arabíu því en hafa nú viðurkennt andlát hans en eru margsaga um hvernig andlátið bar að og hverjir hafi staðið á bak við það. Nú er skuldinni skellt á aðgerð óþekktra þrjóta. 

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hefur lýst því yfir að hann muni upplýsa um sannleikann á bak við morðið í þinginu í dag.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu sögðu fyrst að Khashoggi hafi yfirgefið ræðismannsskrifstofuna síðar þennan sama dag, 2. október. Á föstudag viðurkenndu þau í fyrsta skipti að hann væri dáinn en að hann hafi látist í slagsmálum.

Í gær viðurkenndu yfirvöld í Sádi-Arabíu að Khashoggi hafi verið myrtur en leiðtogar konungsríkisins hafi ekki vitað af aðgerðinni. 

Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Adel al-Jubeir, sagði í viðtali við Fox News í gær að yfirvöld í Sádi-Arabíu séu fastráðin í því að refsa þeim sem beri ábyrgð á morðinu. Að komast að hinu sanna í málinu og að þeim verði refsað sem beri ábyrgð.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert