Nefnd SÞ gagnrýnir búrkubann

Konur með niqab fyrir utan danska þingið fyrr á árinu.
Konur með niqab fyrir utan danska þingið fyrr á árinu. AFP

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gagnrýnt hið svokallaða búrkubann í Frakklandi og segir að lögin hafi brotið gegn réttindum tveggja kvenna sem voru sektaðar fyrir að klæðast búrkum sem huldu andlit þeirra á almannafæri.

Nefndin vill að konurnar fái skaðabætur og að lögin frá árinu 2010 verði endurskoðuð. Þau kveða á um að fólk megi ekki hylja andlit sitt með klæðnaði á opinberum vettvangi.

„Frönsku lögin brutu gegn rétti kvennanna til að láta í ljós trúarskoðanir sínar,“ sagði nefndin í yfirlýsingu. Nefndin bætti við að hún væri ekki sannfærð um rök franskra stjórnvalda um að bannið væri nauðsynlegt í öryggisskyni og í félagslegu samhengi.

Konurnar tvær voru dæmdar árið 2012 fyrir að hafa klæðst niqab-andlitsslæðu sem hylur allt andlitið nema augun.

„Í stað þess að vernda konurnar sem klæddust búrku gæti bannið haft öfug áhrif og orðið til þess að þær fari ekki af heimilum sínum, að það dragi úr aðgangi þeirra að opinberri þjónustu og færi þær út á jaðarinn,“ sagði nefndin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert