Segir samkynhneigða bera ábyrgð á náttúruhamförum

Malasískur stjórnmálamaður, sem hefur verið ákærður fyrir spillingu, segir að …
Malasískur stjórnmálamaður, sem hefur verið ákærður fyrir spillingu, segir að hörmungarnar í Palu séu refsing Allah. AFP

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Malasíu segir að jarðskjálftinn og flóðbylgjan sem fylgdi í kjölfarið á indónesísku eyjunni Sulawesi hafi verið refsing frá Allah vegna framferðis samkynhneigðs fólks. Þúsundir létust í náttúruhamförunum og hafa ummælin fallið í grýttan jarðveg fólks af ólíkum trúarbrögðum.

Leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Ahmad Zahid Hamidi, sem áður var forsætisráðherra Malasíu en tapaði meirihlutanum í þingkosningum í maí, lét þessi ummæli falla á þingi þegar hann varaði við auknum áhrifum samkynhneigðra í Malasíu.

Undanfarna mánuði hafa háttsettir embættismenn í Malasíu, þar á meðal forsætisráðherra landsins, talað gegn réttindum samkynhneigðra í landinu og nýverið voru tvær lesbíur húðstrýktar fyrir að hafa átt í ástarsambandi. Samband fólks af sama kyni er bannað samkvæmt saría-lögum.

Ahmad Zahid Hamidi.
Ahmad Zahid Hamidi. AFP

Ahmad Zahid sem á yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir spillingu sagði í þinginu: „Í Palu, þar sem nýverið reið yfir jarðsjálfti og flóðbylgja, eru yfir eitt þúsund manns búsettir sem eru samkynhneigðir. Þess vegna var svæðinu rústað. Þetta er refsing Allah.“

Jarðskjálfti, sem mældist 7,5 stig, reið yfir borgina Palu á Sulawesi 28. september og síðan þá hafa yfir tvö þúsund manns fundist látnir. Enn er yfir fimm þúsund saknað. 

Ummæli Ahmad Zahid hafa vakið mikla reiði og gagnrýni enda talið að hann sé að beita brögðum popúlista til að bjarga eigin skinni.

Pang Khee Teik, sem er framarlega í aðgerðum til stuðnings samkynhneigðum, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að ummæli sem þessi, það er þegar reynt er að koma sök á samkynhneigða, komi frá stjórnmálamönnum sem eru sjálfir í vanda.

„Næst þegar þú heyrir stjórnmálamann segja að LGBT-fólk beri ábyrgð á náttúruhamförum vinsamlegast hafðu í huga að þetta er vegna þess að hans eigin frami er um það bil að verða rústir einar.“

Ahmad Zahid var í síðustu viku ákærður í 45 liðum fyrir fjársvik að fjárhæð 26 milljónir Bandaríkjadala. Hann er meðal annars sakaður um að hafa þegið mútur og peningaþvætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert