Trump segir ósatt um fólkið í göngunni

AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fer ekki leynt með það að hann vill uppræta hóp þúsunda Suður-Ameríkubúa, aðallega frá Hondúras, sem stefnir að landamærum Bandaríkjanna í þeirri von að komast inn í landið.

Fólkið hefur ferðast, að miklu leyti gangandi, í rúma viku, en flestir eru að flýja ofbeldi og fátækt í heimalandinu. Gangan hófst í Hondúras en hópurinn gekk í gegnum Gvatemala og hefur verið að komast yfir landamærin til Mexíkó þrátt fyrir að óeirðalögregla hafi reynt að stöðva för þeirra.

Trump hefur farið með ýmsar staðhæfingar um fólkið í hópnum sem virðast ekki á rökum reistar, í þeim tilgangi að gera málið pólitískt, en þingkosningar fara fram í Bandaríkjunum í nóvember. Þá hefur forsetinn hótað að loka landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, ásamt því að hóta yfirvöldum í Hondúras því að þau verði af fjárhagsaðstoð leggi þau ekki sitt af mörkum til að stöðva för fólksins.

Segir hryðjuverkamenn í hópnum

Meðal þess sem Trump hefur sagt er að í hópnum séu „óþekktir menn frá Mið-Austurlöndum“. Væntanlega í þeim tilgangi að vekja ótta hjá kjósendum, fá þá til að halda að hryðjuverkamenn nýti sér gönguna sem skjól.

AFP

Fjöldi blaðamanna ferðast með fólkinu og er breiddin í þeirra hópi mikil. Enginn þeirra hefur hins vegar greint frá því að hryðjuverkamenn gætu verið í hópnum eða ýjað að því að einhverjir séu á leið til Bandaríkjanna í annarlegum tilgangi.

Í umfjöllun The Guardian um málið segir að ekki sé ljóst hvers vegna Trump sagði þetta á Twitter en tístið kom skömmu eftir að þáttastjórnandinn Pete Hegseth á sjónvarpsstöðinni Fox News sagði í þætti sínum Fox & Friends, að hryðjuverkamenn frá Ríki íslams ferðuðust með hópnum.

AFP

Hegseth sagði að fjölmiðlar í Gvatemala hefðu haft það eftir forseta landsins að yfir 100 ISIS-liðar hefðu verið fangaðir í landinu. Það kom hins vegar hvergi fram að þeir hefðu verið hluti af göngunni, enda var þetta haft eftir forsetanum áður en gangan hófst.

„Vont fólk, ekki litlir englar“

Þá sagði Trump á fjöldasamkomu í Arizona á föstudag að fólkið í göngunni væri „vont fólk“, „ekki litlir englar“ heldur „harðir, mjög harðir einstaklingar“. Hann gat þó ekki vísað til einhverra gagna eða sannana í því samhengi. Fyrir liggur hins vegar að í hópnum er mikill fjöldi fólks sem er að flýja undan ofbeldi gengja í heimalandinu og margir óttast um líf sitt.

Þegar Emily Cochrane, blaðamaður New York Times, spurði Trump hvaða sannanir hann hefði fyrir því að fólkið í hópnum ætti sögu um ofbeldi, svaraði hann: „Æi, ekki vera svona barnaleg. Líttu bara á hópinn.“

Þá hefur forsetinn ítrekað haldið því fram að demókratar fjármagni gönguna. Á fjöldasamkomu í Montana hélt hann því til að mynda fram að fólkinu hefðu verið látnir í té miklir peningar gegn því að það reyndi að komast upp að landamærunum á kjördag. Það hafa hins vegar ekki komið fram neinar vísbendingar um að demókratar eða önnur pólitísk öfl hafi fjármagnað gönguna í pólitískum tilgangi. Máli sínu til stuðning hefur Trump hins vegar vísað til myndbands þar sem sést hvar einhverjir í hópnum fá afhenta peninga frá fólki úti á götu í Gvatemala. Trump vill meina að peningarnir komi frá demókrötum.

AFP

Þegar betur er rýnt í myndbandið sést hins vegar að fólkið fær mjög lágar upphæðir í mynt landsins, líklega frá íbúum landsins eða liðsmönnum félagasamtaka. Fólk í göngunni hefur greint frá því að þetta gerist stundum þegar gengið sé í gegnum borgir og bæi. Þá komi fólk út á götu til að láta flóttafólkið hafa eitthvað smáræði til að það geti keypt mat og vatn.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert