Gamalt jarðsprengjusvæði fannst

Frá Leníngrad í stríðinu.
Frá Leníngrad í stríðinu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Jarðsprengjusvæði fannst nýverið í nágrenni Pétursborgar í Rússlandi og hafa sprengjusveitir unnið að því síðan að aftengja sprengjurnar samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að jarðsprengjurnar, sem eru frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar, hafi verið lagðar af her Sovétríkjanna sálugu árið 1941 til þess að reyna að stöðva sókn þýskra hersveita í átt að borginni, sem þá bar nafnið Leníngrad, í kjölfar innrásar Þjóðverja. Hersveitir Þjóðverja réðust inn í Sovétríkin í lok júnímánaðar 1941.

Jarðsprengjusvæðið fannst um síðustu helgi um 50 kílómetra fyrir utan Pétursborg. Haft er eftir sagnfræðingnum Andrei Sizov að jarðsprengjurnar séu mjög viðkvæmar og springi ein þeirra geti fleiri sprungið í leiðinni. Íbúi í nágrenninu rakst á svæðið.

Talið er að enn megi finna fjölda jarðsprengja í og við Pétursborg en fjöldi orrusta var háður þar á árunum 1941-1944 á milli þýskra og sovéskra hersveita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert