„Segðu yfirmanni þínum“

Friðarverðlaunahafi Nóbels, Yemeni Tawakkol Karman, stendur við ljósmynd af Jamal …
Friðarverðlaunahafi Nóbels, Yemeni Tawakkol Karman, stendur við ljósmynd af Jamal Khashoggi á viðburði sem var haldinn í Istanbúl. AFP

Skömmu eftir að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var drepinn á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í síðasta mánuði hringdi einn þeirra sem drápu hann í yfirmann sinn og sagði við hann: „Segðu yfirmanni þínum.“ Talið er að sá sem um ræðir sé krónprinsinn Mohammed bin Salman, samkvæmt þremur manneskjum sem hafa vitneskju um upptöku af morðinu á Khashoggi sem tyrknesk yfirvöld hafa undir höndum.

New York Times greinir frá þessu.

Gina Haspel, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, fékk upptökuna í hendurnar í síðasta mánuði. Upptakan er sögð ein sterkustu sönnunargögnin sem tengja Mohammed við morðið á Khashoggi, sem bjó í Virginíu í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir að nafn krónprinsins hafi ekki komið fram í upptökunni telja háttsettir starfsmenn innan bandarísku leyniþjónustunnar að „yfirmaðurinn“ sem um ræðir sé hann. Maher Abdulaziz Mutreb, einn af þeim fimmtán Sádi-Aröbum sem fóru á ræðismannsskrifstofuna til fundar við Khashoggi, var sá sem hringdi og talaði hann á arabísku, að sögn heimildarmannanna þriggja.

Tyrkir hafa sagt Bandaríkjamönnum að þeir telji að öryggisstarfsmaðurinn Mutreb, sem ferðaðist oft með krónprinsinum hafi þarna verið að tala við einn af aðstoðarmönnum prinsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert