Forsetafrúin vill láta reka Ricardel

Melania Trump meðan á ferðalaginu um Afríku stóð.
Melania Trump meðan á ferðalaginu um Afríku stóð. AFP

Forsetafrú Bandaríkjanna, Melania Trump, vill að Mira Ricardel, sem er aðstoðar-þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, verði rekin úr embætti.

Forsetafrúin hefur hingað til gert lítið af því að gagnrýna háttsetta bandaríska embættismenn og koma ummælin því á óvart.

„Afstaða skrifstofu forsetafrúarinnar er að hún verðskuldar ekki lengur þann heiður að fá að þjóna í Hvíta húsinu,“ sagði talskona Melania Trump í stuttri yfirlýsingu og átti þar við Ricardel.

The Wall Street Journal sagði að Ricardel hafi þegar verið rekin og henni fylgt út úr Hvíta húsinu en opinberir starfsmenn þar hafa vísað því á bug. Engu að síður er búist við því að Donald Trump muni reka Ricardel fyrr en síðar. 

Ricardel er sögð hafa átt í deilum við starfslið forsetafrúarinnar meðan á ferð hennar til Afríku stóð í síðasta mánuði. Hún var sögð hafa lekið neikvæðum fréttum um Melaniu Trump í fjölmiðla, samkvæmt The Wall Street Journal sem vísaði í ónafngreinda heimildarmenn.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert