Blaðamenn sagðir sjakalar og hórur

Hundruð lögreglumanna tóku þátt í mótmælum í flestum stórborgum Ítalíu þar sem þess var krafist að frelsi fjölmiðla yrði virt. Ástæðan voru árásir aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu og leiðtoga Fimmstjörnuhreyfingarinnar, Luigi Di Maio, á blaðamenn en hann kallar þá meðal annars sjakala. 

Di Maio hellti sér yfir blaðamenn, ásamt félögum sínum í M5S, sem mynda ríkisstjórn með hægri flokknum Bandalaginu, fyrir umfjöllun um borgarstjórann í Róm sem var hreinsaður af sök um spillingu á laugardag.

Blaðamenn, þar af sumir með myndir af sjakölum, mótmæltu í Róm, Genúa, Mílanó, Flórens og Perugia í gær, undir slagorðinu „Sleppið takinu af fjölmiðlum“.

Forseti blaðamannasambands Rómar, Lazzaro Papagallo, segir blaðamenn ekki sætta sig við að einhver ákveði hvað megi og hvað megi ekki skrifa um. Ef mistök eru gerð þá sé höfðað mál gegn blaðamönnum. Ef ekki þá eigi blaðamenn sama rétt og aðrar starfsstéttir.

Saksóknarar höfðu farið fram á að Virginia Raggi, borgarstjóri í Róm, yrði dæmd í tíu mánaða fangelsi og henni gert að segja af sér embætti. Hún hafði verið sökuð um að ljúga í starfi. Di Maio gagnrýndi harkalega fjölmiðlaumfjöllun síðustu tveggja ára og sagði blaðamenn vera hungraða sjakala. 

Flokksbróðir hans, Alessandro Di Battista, gekk enn lengra og sagði blaðamenn vera hórur. Di Maio skrifaði á Facebook í gær að frelsi til að upplýsa sé ekki frelsi til að ljúga. Ef það eigi að túlkast sem frelsi að ljúga þá verði fólk eins og hann að hafa heimild til þess að verja sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert