Pence ávítti Suu Kyi

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Aung San Suu Kyi, leiðtogi …
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma. AFP

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, fordæmdi meðferð búrmíska hersins á rohingja-múslimum á fundi sínum með Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma, í dag. Sagði Pence „ofsóknir“ hersins ekki eiga sér neina réttlætingu.

Þá þrýsti Pence einnig á Suu Kyi að náða tvo fréttamenn Reuters-fréttastofunnar, sem handteknir voru fyrir tæpu ári er þeir voru staddir í Búrma til að fjalla um mál rohingja. Þeir voru svo dæmdir í sjö ára fangelsi í september sl.

„Ofbeldi og ofsóknir hersins og þeirra sem taka lögin í eigin hendur, sem hefur leitt til þess að 700.000 rohingjar hafa flúið til Bangladess, á sér enga réttlætingu,“ sagði Pence á fundi þeirra Suu Kyi með fjölmiðlum áður en viðræður þeirra hófust. Hann er nú staddur í Singapore til að taka þátt í fundi leiðtoga ríkja í suðausturhluta Asíu

„Ég bíð spenntur eftir að heyra hvernig gengur að draga þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á ofbeldinu sem hefur hrakið hundruð þúsunda á brott og valdið þvílíkum þjáningum og manntjóni.“

Sat sem steinrunnin við hlið Pence

Pence mun funda með öðrum leiðtogum ríkjanna á morgun og er þá búist við að þeir einnig muni hvetja til að þeir sem beri ábyrgð á voðaverkunum í Rakhine-héraðinu í Búrma verði látnir sæta ábyrgð.

Suu Kyi sat sem steinrunnin við hlið Pence er hann lét orðin falla, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Hafa yfirvöld í Búrma alfarið hafnað því að rohingjar hafi sætt ofsóknum, en segja herinn hafa beitt lögmætum aðgerðum gegn uppreisnarmönnum úr þeirra röðum.

„Vissulega hefur fólk mismunandi sjónarhorn, en menn þurfa að skiptast á skoðunum og reyna að skilja hver annan betur,“ sagði Suu Kyi. „Að því leytinu til getum við sagt að við höfum betri skilning á okkar landi en önnur ríki. Rétt eins og ég er viss um að  þú skilur þitt land betur en nokkur annar,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert