Íhaldsmenn leggja fram vantraust á May

Jacob Rees-Mogg, þingmaður Íhaldsflokksins og einn helsti stuðningsmaður Brexit, hefur …
Jacob Rees-Mogg, þingmaður Íhaldsflokksins og einn helsti stuðningsmaður Brexit, hefur lagt fram vantrauststillögu á formennsku Theresu May í flokknum og safnar nú liði innan flokksins svo tillagan nái framgöngu. AFP

Jacob Rees-Mogg, þingmaður Íhaldsflokksins og einn helsti stuðnings­maður Brex­it, hyggst leggja fram vantrauststillögu á formennsku Theresu May í flokknum. Rees-Mogg safnar nú liði en 48 þingmenn þurfa að skrifa undir skjal og afhenda stjórn flokksins, svokallaðri 1922-nefnd, svo vantrauststillagan verði tekin gild. 

Rees-Mogg lýsti því yfir í gær að hann sé svo óánægður með drög­in að Brexit-samningi sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að hann gæti hætt að styðja May.

Hart hefur verið sótt að Theresu May á breska þinginu í dag þar sem umræða um samningsdrögin fer fram. Samningsdrögin fá lítinn sem engan stuðning og virðast þingmenn vera óvissir um hvort þeir eigi að lýsa vantrausti á May eða greiða atkvæði gegn drögunum. 

„Því miður eru samningsdrögin sem kynnt voru þinginu í dag verri en búist var við og ekki í samræmi við vilja þjóðarinnar,“ segir í bréfinu sem Rees-Mogg hefur skilað til 1922-nefndarinnar. Hann neitaði að samþykkja drögin á þinginu fyrr í dag.

Sækist ekki sjálfur eftir formennsku

Rees-Mogg segir í samtali við BBC að hann sé ekki að sækjast eftir formennsku í flokknum heldur sé vantrauststillagan lögð fram þar sem May hafi mistekist að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. „Þetta hefur ekkert með mig að gera. Þetta snýst um vantraust á núverandi formann og að samningurinn virkar einfaldlega ekki.“

Aðspurður hverjir gætu gegnt embætti formanns flokksins betur en May segir Rees-Mogg að innan Íhaldsflokksins megi finna fjöldann allan af hæfileikaríkum leiðtogum. Benti hann á Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, og David Davis, fyrrverandi Brexit-ráðherra. Þá nefndi hann einnig tvo af þremur ráðherrum sem sögðu af sér fyrr í dag vegna samingsdraganna; Dom­inic Raab, ráðherra Brex­it-mála, og Esther McVey, ráðherra vinnu- og eft­ir­launa­mála. Einnig nefndi hann Penny Mordaunt, ráðherra jafnréttismála. 

Ef Rees-Mogg tekst að safna 48 undirskriftum þarf að kjósa um nýja forystu í flokknum. Ef það tekst hins vegar ekki mun May sitja sem fastast sem formaður flokksins og ekki verður hægt að leggja fram vantrauststillögu á hana á næstu 12 mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert