Jim Acosta má vera í Hvíta húsinu

Donald Trump rífst við Jim Acosta í Hvíta húsinu á …
Donald Trump rífst við Jim Acosta í Hvíta húsinu á dögunum. Hann bannaði honum að koma aftur. AFP

Eftir úrskurð dómara hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti gefið fyrirmæli um að Jim Acosta blaðamanni CNN verði aftur gefinn aðgangur að blaðamannafundum Hvíta hússins. Hann var sviptur fjölmiðlapassanum sínum fyrr í mánuðinum eftir hörð átök við forsetann.

BBC segir frá þessu.

Það var dómari í Washington sem fyrirskipaði að Hvíta húsið yrði að hleypa blaðamanninum aftur inn. Hann sagði að það að varna honum inngöngu bryti gegn rétti blaðamannsins til sanngjarnar málsmeðferðar og tjáningarfrelsis hans.

Eins og mbl.is greindi frá fór CNN í mál við Hvíta húsið eftir að Acosta var meinaður aðgangur. Lögmaður Acosta segir ályktun dómarans gera daginn að „frábærum degi fyrir fyrstu stjórnarskrárviðbótina og fyrir blaðamennsku.“

Sarah Sanders, talsmaður Hvíta hússins, segir að Hvíta húsið verði við þessari kröfu, að hleypa honum aftur inn. Þá muni stofnunin jafnframt áfram reyna að greiða fyrir sanngjörnum aðstæðum fyrir fréttamenn í húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert