Dæmdir fyrir þjóðarmorð

Khieu Samphan sést hér hlýða á niðurstöðu dómsins í morgun.
Khieu Samphan sést hér hlýða á niðurstöðu dómsins í morgun. AFP

Tveir leiðtogar Rauðu khmeranna voru í dag fundnir sekir um þjóðarmorð tæplega fjörutíu árum eftir að þeir fóru frá völdum. Yfir fjórðungur íbúa Kambódíu var myrtur á þeim fáu árum sem öfgasamtökin réðu ríkjum í landinu. 

Annar þeirra, Khieu Samphan, var einn af fáum opinberum andlitum Rauðu khmeranna og fyrr­ver­andi for­seta ógn­ar­stjórn­ar þeirra. Hann hlaut lífstíðardóm árið 2014 fyrir glæpi gegn mannkyninu. Hann er 87 ára gamall.

Khieu Samphan var einnig viðstaddur dómsuppkvaðninguna í dag.
Khieu Samphan var einnig viðstaddur dómsuppkvaðninguna í dag. AFP

Hinn, bróðir númer 2, Nuon Chea, sem er 92 ára gamall, var einnig dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2014 fyrir glæpi gegn mannkyninu. Dómurinn í dag markar tímamót því afar fáir þeirra sem fóru með völdin í Kambódíu á þessum tíma hafa verið dæmdir fyrir glæpi sína og aldrei áður hafa þeir verið dæmdir fyrir þjóðarmorð. 

Khmerarnir, sem voru við völd 1975-1979, eru taldir hafa myrt allt að tvær milljónir Kambódíumanna. Flestir þeirra létust vegna vinnuþrælkunar, úr hungri og í fjöldaaftökum. 

Fjöldamorð khmeranna á 100.000-500.000 cham-múslimum og 20.000 Víetnömum eru grundvöllur ákæru á hendur Nuon Chea og Khieu Samphan fyrir þjóðarmorð. 

Fjölmargir voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna í dag. Þar á meðal fórnarlömb …
Fjölmargir voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna í dag. Þar á meðal fórnarlömb og ættingjar þeirra. AFP

„Bróðir númer eitt“, Pol Pot, fór fyrir khmerunum, sem rifu niður innviði samfélagsins til að skapa landbúnaðarútópíu í Kambódíu. Nuon Chea og Khieu Samphan voru meðal annars ákærðir fyrir að hafa átt þátt í því að tugþúsundir manna og kvenna voru neyddar til að giftast, oft í fjöldaathöfnum, í tilraun til að fjölga íbúum Kambódíu.

Nuon Chea var í dag fundinn sekur um þjóðarmorð minnihlutahópa, Víetnama og cham-múslima, auk annarra glæpa. Khieu Samphan var einnig fundinn sekur um þjóðarmorð á Víetnömum en ekki cham-múslimum. Báðir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi en eins og áður hefur komið fram er þetta annar lífstíðardómurinn sem þeir hljóta.

Á Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um Rauðu khmerana

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert