Greindi frá áreitni og dæmd í fangelsi

Baiq Nuril Maknun.
Baiq Nuril Maknun. AFP

Indónesísk kona hefur verið dæmd í sex mánaða fangelsi af hæstarétti landsins fyrir að hafa tekið upp kynferðislega áreitni af hálfu yfirmanns hennar. Hæstiréttur sneri þar við dómi undirréttar sem hafði sýknað hana af ákæru um að hafa brotið lög með því að birta upptöku með ósæmilegu efni.

Baiq Nuril Maknun, 37 ára gamall kennari sem starfaði við skóla á eyjunni Lombok, tók upp símtal við skólastjórann sem hún sakaði um að hafa ítrekað beitt hana kynferðislegri áreitni. Vinnufélagi hennar notaði hljóðupptökuna til þess að leggja fram formlega kvörtun yfir skólastjóranum og hegðun hans.

Baiq Nuril Maknun.
Baiq Nuril Maknun. AFP

Hæstiréttur Indónesíu dæmdi Maknun aftur á móti seka um að dreifa ósæmilegu efni sem bryti gegn lögum um miðlun rafrænna gagna, samkvæmt frétt Guardian.

Auk sex mánaða fangelsisdóms er henni gert að greiða rúmar fjórar milljónir króna í sekt. 

Framkvæmdastjóri Amnesty International í Indónesíu, Usman Hamid, segir að kona hafi verið sakfelld fyrir það eitt að greina frá áreitni sem hún varð fyrir. Fórnarlambið hafi hér verið dæmt en lítið sem ekkert hafi verið gert til þess að rannsaka þær ásakanir sem hún hélt fram.

Ein af hverjum þremur konum í Indónesíu hefur orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni, segir í frétt Guardian og að dómurinn hafi verið kveðinn upp fyrir luktum dyrum 26. september en ekki upplýst um hann fyrr en nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert