Skordýr seld í breskum matvöruverslunum

Grillaðar krybbur eru sagðar vera með „brakandi áferð og með …
Grillaðar krybbur eru sagðar vera með „brakandi áferð og með ríkulegu reykbragði“. Ljósmynd/Eat Grub

Grilluð skordýr verða fáanleg í verslunum Sainsbury‘s verslanakeðjunnar frá og með næsta mánudegi. Verslanirnar verða þar með þær fyrstu í Bretlandi til að selja skordýr til átu.

Byrjað verður á að selja grillaðar krybbur, sem sagðar eru vera með„brakandi áferð og með ríkulegu reykbragði“.

Breska dagblaðið Guardian greinir frá þessari nýjungu í verslununum og segir auknar áhyggjur af loftslagsbreytingum vera einn þeirra þátta sem hafi vakið aukin áhuga á skordýrum til manneldis, þar sem ræktun þeirra taki hvorki upp mikið landsvæði né sé hún vatnsfrek.

Það er breska fyrirtækið Eat Grub sem á heiðurinn að þessu nýmeti, en fyrirtækið beitir einmitt fyrir sig umhverfisrökum til að fá neytendur til að bragða á krybbunum. Segja forsvarsmenn fyrirtækisins krybburnar vera „sjálfbærari framleiðslu“ en þurrkaða purubita, sem eru vinsælt snakk í Bretlandi, og „meira spennandi en kartöfluflögur“.

Krybburnar eru ræktaðar í Evrópu og eru seldar um 50 saman í pakka á um 240 krónur. Hægt er að borða þær eina sér sem snakk, eða nota þær til að dreifa yfir núðlur, súpur og salat.

Að sögn Matvælastofnunnar Sameinuðu þjóðanna neyta um tveir milljarðar manna reglulega skordýra og er talið að markaðurinn með skordýr til manneldis muni fara yfir 520 milljónir dollara árið 2023.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert