Ekki fengið greidd laun í átta ár

Verkamenn í Nígeríu taka hér þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum, …
Verkamenn í Nígeríu taka hér þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum, sem ekki hafa komið á lágmarkslaunum í landinu. AFP

Rauf Aregbesola, fylkisstjóri í Osun í suðurhluta Nígeríu sem nú er að láta af störfum, segist ekki hafa fengið greidd laun í þau átta ár sem hann gegndi starfinu. Kvaðst Aregbesola ekki þurfa á laununum að halda þar sem ríkið sæi um að gefa honum að borða, flytti hann á milli staða og veitti honum húsaskjól.

„Með allt þetta þá þarf ég ekki peninga,“ sagði hann.

Notendur samfélagsmiðla hafa tekið þessari fullyrðingu Aregbesola af nokkurri tortryggni og hafa margir sakað hann um að ljúga.

Fjárútgjöld nígerískra embættismanna hafa verið í sviðsljósinu undanfarið eftir að í ljós kom að þingmenn eiga rétt á mánaðarlegum starfskostnaði sem er 13 sinnum hærri en mánaðarlaun þeirra. Sagði einn fyrrverandi fylkisstjóri á þeim tíma að Nígeríubúar yrðu enn reiðari ef þeir kæmust að því hvaða upphæðum fylkisstjórar hefðu aðgang að.

Einn samfélagsmiðlanotendi spurði hvort að Aregbesola teldi sig vera að tala við óvita og annar varpaði fram þeirri spurningu hvernig vitneskjan um launaleysi hans drægi úr þjáningum almennra borgara.

Aregbesola lætur af störfum í lok mánaðarins, en hann tapaði í síðustu kosningum fyrir Alhaji Gboyega Oyetola, sem áður gegndi embætti starfsmannastjóra hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert