Telja sig vita hverjir höfuðpaurarnir eru

Daphne Caruana Galizia á leið í réttarsal. Lögregla telur sig …
Daphne Caruana Galizia á leið í réttarsal. Lögregla telur sig nú vita hverjir skipulögðu morðið á henni. AFP

Lögreglumenn á Möltu sem rannsakað hafa morðið á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia telja sig nú vita hverjir stóðu að drápinu. Frá þessu er greint í blaðinu Sunday Times of Malta í dag. Nöfn eru ekki gefin upp en hópur þriggja manna er sagður hafa hafa skipulagt morðið. Reuters-fréttaveitan greinir frá.

Caruana Galizia, sem  vann m.a. ít­ar­leg­ar frétt­ir um spill­ing­ar­mál tengd­ for­sæt­is­ráðherra lands­ins, var myrt með bílsprengju fyrir utan heimili fjölskyldunnar  í október í fyrra.

Hefur blaðið eftir hátt settum lögreglumanni sem leiðir rannsóknina að hún sé vel á veg kominn. Blaðið segir hins vegar ekki liggja fyrir hversu lengi til viðbótar rannsóknin kunni að standa yfir, né hvort þessar upplýsingar hafi leitt til þess að fleiri hafi verið handteknir.

Þrír menn sem grunaðir voru um að hafa verið fengnir til að myrða Caruana Galizia hafa nú setið í varðhaldi í tæpt ár. Þeir hafa lýst sig saklausa af ásökununum. Fram kemur í dómsskjölum sem lögð voru fram í tengslum við handtöku þeirra að mennirnir hefðu virkjað sprengjuna með SMS skilaboðum.

Ástæður morðsins liggja enn ekki fyrir, en blaðið segir rannsakendur telja þá sem pöntuðu morðið hafa haft mismunandi ástæður fyrir að vilja hana feiga. Þeir hafi hins vegar sameinast um að láta myrða Caruana Galizia.

Heimildamenn blaðsins vildu ekki greina frá því hvort að skipuleggjendurnir þrír tengdust glæpasamtökum, viðskiptalífinu eða stjórnmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert