„Ég hefði líka skotið mig“

Norðurkóreskur hermaður sem vakti heimsathygli er hann gerðist liðhlaupi með dramatískum hætti fyrir ári, er hann flúði yfir til Suður-Kóreu undir kúlnahríð félaga sinna í hernum, hefur nú tjáð sig um lífið norðan landamæranna.

Maðurinn, Oh Chong, fékk í sig fimm byssukúlur á flóttanum og var lengi milli heims og helju á suður-kóresku sjúkrahúsi.

CNN fjallar um málið, en Chong sagði í viðtali við japanska og suður-kóreska fjölmiðla að mikill meirihluti yngri kynslóðarinnar í Norður-Kóreu finni fyrir lítilli hollustu gagnvart leiðtoganum Kim Jong-un.

Chong sagðist vel skilja að hermennirnir sem áttu að teljast vinir hans hefðu skotið á hann. „Ef þeir skjóta ekki þá er þeim refsað,“ sagði hann. „Ef ég væri í þeirra stöðu þá hefði ég líka skotið mig.“

Ástæðu þess að hann ákvað að flýja sagði hann vera „vanda“ sem hann lenti í gagnvart vinum sínum í hernum.

Chong var á sjúkrahúsi þar til í febrúar á þessu ári og hann þarf enn að fara reglulega í skoðun. Hann hefur til að mynda litla tilfinningu í öðrum handleggnum eftir byssukúlurnar.

Þáði mútur til að lifa af sem lögreglumaður

Þrátt fyrir að Chong teldist til miðstéttar í Norður-Kóreu og hann hefði gengið í herinn, líkt og aðrir í fjölskyldunni, sagði hann hungur vera stóran þátt í lífinu þar norður frá.

„Ef maður á hvorki peninga, né hefur einhver völd, þá deyr maður úti í skurði.“

Hann viðurkenndi fúslega að ein þeirra leiða sem hann hefði notað til að lifa af í sínu fyrra starfi sem lögregluþjónn hefði verið að líta fram hjá brotum ef honum var greitt fyrir. Sagðist hann jafnvel hafa hótað fangelsisvist þeim sem brutu af sér en borguðu honum ekki.

Mannlegur úrgangur notað sem áburður 

Mikið af sníkjudýrum fannst í líkama Oh á sjúkrahúsinu og segir hann ástæðu þess vera að mannlegur úrgangur sé notaður sem áburður. Hann líkt og flestir aðrir Norður-Kóreubúar hafi því verið með sníkjudýr.

„Í hernum er borðbúnaðurinn notaður aftur og aftur án þess að vera þveginn. Sníklarnir þrífast hins vegar ekki hjá þeim sem eru verulega vannærðir. Í mínu tilfelli fundist sníkjudýr í mér af því að ég var vel haldinn.“

Þá sagði Chong útbreiddan skort á matvælum og öðrum varningi hafa leitt til almenns sinnuleysis í garð leiðtogans. „Fólk á mínum aldri, um 80% þeirra eru áhugalaus og finna ekki til tryggðar í garð Kim. Hann getur ekki fætt fólkið almennilega, en erfðaréttinum er samt viðhaldið — það leiðir til áhugaleysis og engrar tryggðar,“ sagði Chong.

Frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu.
Frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert