„Vinnum negravinnu“

Bifreið Ole Petter Madland með hinni umdeildu auglýsingu fyrirtækis hans …
Bifreið Ole Petter Madland með hinni umdeildu auglýsingu fyrirtækis hans um „negravinnu“. Madland sjálfur er hægra megin. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við hjálpum öllum! Vinnum alla negravinnu!“ (n. Vi hjælper ælle! Utfører alt i nægerærbe, sett fram með mállýskuskotinni framburðarstafsetningu) stendur skýrum stöfum á bifreið byggingarverktakans Ole Petter Madland sem rekur fyrirtækið Byggetjenesten í Askim í norska fylkinu Østfold, sunnan við Ósló.

Eftir að staðardagblaðið Smaalenens Avis greindi frá því að lögreglan á staðnum hefði ákært Madland fyrir brot gegn 185. grein norsku hegningarlaganna, sem fjallar um hatursorðræðu, hafa flestir norskir fjölmiðlar gert málinu skil. Smaalenens Avis lokar síðu sinni öðrum en greiðandi áskrifendum en dagblaðið VG er meðal þeirra fjölmiðla sem fjallað hafa um auglýsingu byggingarverktakans sem vakið hefur töluverð viðbrögð og segir Fredriksstad Blad, sem líka er í læstri dagskrá, meðal annars að málið sé nú umfjöllunarefni um allt land.

„Það er nú ekkert á bak við þetta annað en spaugsemi,“ útskýrir Madland fyrir norska ríkisútvarpinu NRK, „ég ólst nú bara upp við þetta orðfæri og lít ekki á þetta sem kynþáttahatur. Nú til dags er ungu fólki uppálagt að nota ekki orð á borð við negri, hottintotti og indíáni, ég ólst bara upp við allt annað,“ segir hinn 55 ára gamli Madland.

Ættu að einbeita sér að hnífstungum og nauðgunum

Menn hlæja þó lítið að spaugi byggingarverktakans á lögreglustöðinni í Askim þar sem Espen Valsgård, deildarstjóri forvarnadeildar embættisins, verður fyrir svörum í ríkisútvarpinu: „Vera kann að mörgum þyki þetta ekki alvarlegt mál, en skoða verður hlutina frá sjónarhóli þeirra sem fyrir þeim verða,“ segir deildarstjórinn sem hefur látið útbúa ákæru á vegum embættisins.

Madland byggingarverktaki telur gróflega að sér vegið með slíkum gjörningi. „Lögreglan segist vera að ákæra mig fyrir alvarlegt afbrot. Ég lít á hnífstungur, nauðganir og rán sem alvarleg afbrot. Lögreglan ætti að beina starfskröftum sínum að slíkum málum en ég get svo sem alveg tekið þennan límmiða af bílnum,“ segir hann.

„Mér finnst þetta yfirdrifið („litt overkill“) sagði Madland í spjalli við mbl.is fyrir stuttu um leið og hann heimilaði notkun á myndum úr einkasafni sínu. Þegar blaðamaður innti hann þess hvort hann vænti dóms, jafnvel sektar, sagði hann það sér til efs. „Það hefur enginn verið dæmdur fyrir orðið negri í Noregi,“ sagði verktakinn að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert