Ítalska lögreglan hirðir glæsihýsi af mafíu

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu.
Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu. AFP

Lögreglan í Róm á Ítalíu hefur lagt hald á átta glæsihýsi sem ítalska mafían byggði með ólögmætum hætti í úthverfi í suðausturhluta borgarinnar. Til stendur að jafna húsin við jörðu, að því er segir á vef BBC.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra landsins, og Virginia Raggi, borgarstjóri Rómar, fylgdust með þegar um 600 lögreglumenn lögðu hald á glæsihýsin sem voru í eigu Casamonica-samtakanna. 

Borgarstjórinn hefur birt myndskeið á Facebook-síðu sinni sem sýnir lögreglumenn brjóta sér leið inn í eitt húsið. 

Hún segir að húsin, sem eru í Quadraro-hverfi borgarinnar, brjóti gegn byggingarreglugerð borgarinnar. Á sumum stöðum næðu lóðirnar jafnvel yfir stór svæði hins sögulega Felice-vatnsveitustokks borgarinnar.  

Virginia Raggi, borgarstjóri Rómar.
Virginia Raggi, borgarstjóri Rómar. AFP

Raggi er flokksmaður í Fimmstjörnuhreyfingunni, sem á sæti í ríkisstjórn með hægriflokknum Bandalaginu. 

Fram kemur á vef BBC, að þetta er ekki í fyrsta sinn sem nýja ríkisstjórnin ræðst til atlögu gegn eignum Casamonica. 

Liðsmenn samtakanna eiga rætur að rekja til rómafólks, eða sígauna. Í júní gagnrýndu nokkrir félagar í Casamonica Salvini harðlega fyrir að ætla sér að skrá allt rómafólk í landinu. Salvini og flokkur hans, Bandalagið, berst fyrir hertri útlendingalöggjöf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert