Trump í fótspor Clinton

Dóttir Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna og einn helsti ráðgjafi hans í starfi, Ivanka Trump, fetar í fótspor Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en samkvæmt Washington Post nýtti hún persónulegan póst sinn í opinberu starfi.

Post hefur eftir ónafngreindum heimildum að embættismenn í Hvíta húsinu hafi komist að þessu þegar farið var yfir tölvupóstsamskipti í tengslum við opinber mál. Þegar Ivanka Trump er spurð út í málið segist hún ekki vita hvað reglurnar um tölvupóstsamskipti fela nákvæmlega í sér. 

Talskona lögmanns Trumps staðfestir að Ivanka Trump hafi notað persónulegan tölvupóst áður en hún var upplýst um reglurnar en nokkrir mánuðir séu síðan hún hafi hætt því. 

Ivanka Trump er einn helsti ráðgjafi forseta Bandaríkjanna.
Ivanka Trump er einn helsti ráðgjafi forseta Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump gagnrýndi Clinton ítrekað í kosningabaráttunni árið 2016 fyrir að hafa notað einkapóst í opinberum erindagjörðum.

Forstjóri alríkislögreglunnar sem Trump rak úr embætti í fyrra, James Comey, greindi frá því aðeins 11 dögum fyrir forsetakosningarnar 2016 að lögreglan myndi hefja að nýju rannsókn á tölvupóstsamskiptum Clinton og er talið af mörgum að þetta hafi jafnvel kostað hana forsetaembættið. Stuðningsmenn Trumps eru enn með slagorðið „læsum hana inni“ á fundum með forseta Bandaríkjanna. 

Fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata, Hillary Clinton.
Fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata, Hillary Clinton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert