Braut gegn 300 norrænum drengjum

Maðurinn nálgaðist drengina á spjallþráðum á netinu og samfélagsmiðlum eins …
Maðurinn nálgaðist drengina á spjallþráðum á netinu og samfélagsmiðlum eins og Snapchat. AFP

Ríkissaksóknari Noregs hefur ákært mann á þrítugsaldri fyrir kynferðisbrot gagnvart ungum drengjum. Fórnarlömb mannsins, sem var knattspyrnudómari, eru um 300 talsins. Aðeins tvö þeirra hafa stigið fram og greint frá ofbeldinu.

Í yfirlýsingu frá saksóknara, Guro Hansson Bull, eru brot mannsins mjög alvarleg og stærsta kynferðisbrotamál í sögu Noregs. Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir nauðgun og annað ofbeldi gagnvart drengjum. 

Maðurinn á að hafa tælt drengina á netinu þar sem hann þóttist vera kvenkyns á spjallrásum. Hann fékk drengina til þess að afklæðast og sýna kynferðislega tilburði fyrir framan tölvuna gegn loforði um að senda þeim erótískar myndir í staðinn. Maðurinn tók drengina upp á vefmyndavél. 

Að sögn Bull eru fórnarlömbin rúmlega 300 talsins, flest á aldrinum 13-16 ára. Sá yngsti var aðeins 9 ára gamall þegar brotið var gegn honum. Ofbeldið nær aftur til ársins 2011 og braut hann gegnum drengjum í Noregi sem og í Svíþjóð og Danmörku.

Lögfræðingur mannsins, Gunnhild Lærum, segir að hann hafi játað en réttarhöld í málinu hefjast snemma á næsta ári.

Ákæran var birt í gær og er hún 81 blaðsíða að lengd. Þar kemur fram að lögreglan telji að maðurinn hafi misnotað, nauðgað og beitt drengina ofbeldi. Maðurinn þóttist vera stelpa á sama aldri og drengirnir og nálgaðist þá á Snapchat og fleiri samfélagsmiðlum sem ungt fólk notar.

Í tölvu hans fundust tæplega 17 þúsund myndskeið af drengjunum sem meðal annars fróuðu sér fyrir framan vefmyndavél gegn loforði mannsins um að fá sendar erótískar myndir í staðinn. Maðurinn hótaði drengjunum að hann myndi birta myndskeiðin á netinu ef þeir héldu ekki áfram að senda sér nektarmyndir. Eins á hann að hafa boðið þeim fé gegn kynmökum. Hann fékk að minnsta kosti einn pilt til þess að hitta sig og nauðgaði honum. 

Maðurinn var handtekinn árið 2016 en látinn laus skömmu síðar. Hann var síðar handtekinn að nýju og dæmdur í fangelsi. Hann hefur afplánað í Ila-fangelsinu síðan árið 2016.

Lærum segir að maðurinn hafi verið samstarfsfús við lögreglu og iðrist gjörða sinna. 

Aðeins tveir drengir hafa staðfest brot mannsins og segir Bull að þetta lýsi vel hversu erfitt það er fyrir ungmenni, sérstaklega drengi, að stíga fram og greina frá kynferðislegu ofbeldi og misnotkun. 

Umfjöllun NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert