Finnar handteknir fyrir að dreifa trúarriti

AFP

Fjórir Finnar eru í haldi malasísku lögreglunnar en þeir eru sakaðir um að hafa dreift kristilegum bæklingum á eyjunni Langkawi. Þeir eiga yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóm verði þeir fundnir sekir.

Trúarbrögð eru afar viðkvæmt og um leið eldfimt málefni í Malasíu en rúmlega 60% þjóðarinnar eru íslamstrúar. Aukin völd öfgasinna hafa valdið því að dregið hefur úr umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum og þeim sem eru hógværari í trú sinni. 

Um er að ræða tvær konur og tvo karla en þau voru handtekin í gær eftir ítrekaðar kvartanir frá fólki að sögn lögreglu. 

Finnarnir fjórir, sem eru á aldrinum 27-60 ára, voru handteknir á hóteli á eyjunni og hald lagt á penna, stílabók og tösku þeirra. Þeir eru sakaðir um að hafa brotið lög sem banna dreifingu trúarrita. Refsingar við slíku broti eru tveggja til fimm ára fangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert