Kim Jong-yang nýr forstjóri Interpol

Kim Jong-yang, sem er frá Suður-Kóreu, hefur verið kjörinn nýr forstjóri Interpol á ársfundi alþjóðalögreglunnar í Dúbaí. Mjög hefur verið tekist á um hver ætti að hreppa hnossið undanfarna daga en til stóð að Rússinn Alexander Prókoptsjúk tæki við embættinu.

Líkt og fram kemur í Morgunblaðinu í dag er óttast að Rússar myndu misnota stöðuna til að koma höggi á stjórnarandstæðinga ef Prókoptsjúk yrði fyrir valinu.

Hópur bandarískra öldungadeildarþingmanna úr röðum bæði demókrata og repúblikana birti fyrr í vikunni opið bréf þar sem þeir sögðu að það væri eins og að „fela ref stjórn hænsnabús“ að velja Prókoptsjúk. „Rússar misnota Interpol reglulega í þeim tilgangi að jafna sakir við og ofsækja pólitíska andstæðinga, andófsmenn og blaðamenn,“ skrifuðu þeir. Í opna bréfinu sagði að Prókoptsjúk hefði persónulega tekið þátt í þessu eftir að hann var kjörinn í framkvæmdastjórn Interpol.

Tveir menn, sem hafa verið þyrnir í augum rússneskra stjórnvalda, gengu í gær lengra í gagnrýni sinni og lýstu yfir því að þeir ætluðu að leita á náðir dómstóla til að fá Rússum vikið úr Interpol vegna misnotkunar þeirra á alþjóðalögreglunni.

Þeir eru fjárfestirinn Bill Browder, sem hefur leitað til dómstóla í Rússlandi með ásakanir um mannréttindabrot rússneskra embættismanna og aðild þeirra að dauða lögmanns síns í gæsluvarðhaldi í Moskvu fyrir níu árum, og auðkýfingurinn Míkhaíl Kodorkovskí, sem sat í fangelsi í Rússlandi í tíu ár og býr nú í útlegð í London. Ráðamenn í Kreml hafa ítrekað reynt að koma því til leiðar að gefin yrði út alþjóðleg handtökuskipun á hendur þeim.

Fyrrverandi forstjóri Interpol, Meng Hongwei frá Kína, hvarf í heimalandi sínu í september. Kínversk stjórnvöld upplýstu Interpol í kjölfarið um að hann hefði sagt af sér eftir að hann var kærður fyrir að þiggja mútur.

Interpol.
Interpol.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert