Segja Trump svíkja bandarísk gildi

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir mögulega aðild sádi-arabíska krónprinsins að …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir mögulega aðild sádi-arabíska krónprinsins að morði á blaðamanninum Jamal Khashoggi engu breyta um samskipti ríkjanna. AFP

Yfirlýsing Donald Trumps Bandaríkjaforseta um áframhaldandi stuðning bandarískra stjórnvalda við ráðamenn í Sádi-Arabíu hefur vakið töluverð viðbrögð löggjafa og fjölmiðla í Bandaríkjunum.

Washington Post segir Trump hafa svikið bandarísk gildi með stuðningsyfirlýsingu sinni og New York Times segir forsetann hafa sýnt einræðisherrum heims hversu langt þeir geti gengið, en forsetinn sagði í gær Mohammed bin Salm­an, krón­prins Sádi-Ar­ab­íu, mögulega kunna að hafa vita af morðinu á blaðamann­in­um Jamal Khashoggi. Það muni aft­ur á móti ekki hafa áhrif á sam­skipti ríkj­anna tveggja.

Leiðtogar demókrata og repúblikana í utanríkisnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hafa þá beðið Trump að ganga úr skugga um hvort krónprinsinn hafi átt þátt í morðinu á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi, að því er BBC greinir frá. Sendu þeir forsetanum bréf í gær þar sem krafist var nýrrar rannsóknar. Khashoggi var myrtur 2. október á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl og fullyrða tyrknesk yfirvöld að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafi staðið á bak við morðið.

„Kannski mun­um við aldrei vita all­ar staðreynd­irn­ar í kring­um morðið á Jamal Khashoggi,“ sagði  í yfirlýsingu Trumps sem kvað Banda­rík­in þrátt fyr­ir morðið áfram vera bandamann Sádi-Ar­ab­íu.

Málið hef­ur verið vand­ræðal­egt fyr­ir Banda­ríkja­stjórn sem hef­ur verið hliðholl kon­ungs­veld­inu í Sádi-Ar­ab­íu. Hefur Trump und­an­farn­ar vik­ur ekki viljað taka til greina þau sönn­un­ar­gögn sem hafa komið upp um aðild stjórn­valda í Sádi-Ar­ab­íu að morðinu, né heldur að krón­prins­inn hafi fyr­ir­skipað það.

Fyrirskipi rannsókn á prinsinum sérstaklega

New York Times greindi frá því í síðustu viku að banda­ríska leyniþjón­ust­an CIA hefði úr­sk­urðað að krón­prins­inn hafi átt þátt í morðinu á Khashoggi. Trump segir hins vegar CIA ekki hafa staðfest aðild hans 100%.

Í kjölfar yfirlýsingar Trump sendu repúblikaninn Bob Corker og demókratinn Bob Mendez yfirlýsingu fyrir hönd utanríkisnefndarinnar. Hvöttu þeir í bréfinu forsetann til að efna til annarrar rannsóknar þar sem áherslan verði á krónprinsinn, þannig að hægt verði að „ákvarða hvort erlendur einstaklingur beri ábyrgð á morði án dóms og laga, pyntingum og öðrum meiri háttar brotum“ á mannréttindum.

Geti myrt gagnrýnendur án afleiðinga

Í umfjöllun sinni um málið segir New York Times Trump lengi hafa litið á utanríkismál sem röð viðskiptasamninga sem hafi lítið með gildi eða hugsjónir að gera. Segir blaðið forsetann afhjúpa þessa stefnu sína í yfirlýsingunni á Khashoggi-morðinu. Þar sýni hann nákvæmlega hvernig hann telji að „hrein kaupauðgisstefna eigi að stjórna þeim ákvörðunum sem Bandaríkin taki í Mið-Austurlöndum og heiminum öllum,“ að því er segir í greininni.

„Trump hefur sýnt skýrt fram á að hann lítur á tengsl sem viðskipti sem byggi á því hvaða erlendu viðskiptafélagar kaupi flestu vopnin. Bandarísk störf vegi þyngra en bandarísk gildi. Öll ríki hagi sér andstyggilega og því þurfi hann aldrei að meta vinaþjóðir samkvæmt öðrum stöðlum en óvinaríki.

Yfirlýsingin í dag getur orðið að eins konar frumgerð fyrir erlenda leiðtoga — leiðbeiningar um hvernig þeir geti aukið stöðu sína hjá bandaríska forsetanum, sem og hversu langt þeir geti gengið til að bæla niður gagnrýnendur heima fyrir án þess að vekja reiði Bandaríkjanna.“

Tekið er í sama streng í ritstjórnarpistli Washington Post, þar sem Khashoggi starfaði áður en hann var myrtur. Segir í ritstjórnarpistlinum að utanríkismálanefndin verði að láta krónprinsinn svara til saka. Að öðrum kosti verði heimsmyndin þannig „að einræðisherrar viti að þeir geti myrt gagnrýnendur sína án afleiðinga.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert