Framselja ekki meinta morðingja

AFP

Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Adel al-Jubeir, hafnaði í dag kröfum forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, um að þeir sem grunaðir eru um morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi verði framseldir.

„Við framseljum ekki okkar eigin ríkisborgara,“ sagði al-Jubeir á fréttamannafundi í Riyadh fyrr í dag.

Erdogan Tyrklandsforseti hefur ítrekað kallað eftir því að yfirvöld Sádi-Arabíu framselji hina meintu morðingja. Rúmlega tveir mánuðir eru síðan Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Tyrklandi.

Tyrkneskur dómstóll gaf á miðvikudag út handtökuskipun gagnvart fyrrum stjóra sádi-arabísku leyniþjónustunnar, Ahmad al-Assiri og fyrrverandi ráðgjafanum Saud al-Qahtani að beiðni saksóknara í Istanbúl.

Assiri er talinn hafa verið viðstaddur marga lokaða fundi krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, með erlendum höfðingjum og ráðamönnum. Qahtani var nánasti ráðgjafi krónprinsins um tíma. Krónprinsinn rak þá báða eftir að yfirvöld í Riyadh viðurkenndu að Khashoggi hefði verið myrtur á ræðisskrifstofunni.

Utanríkisráðherrann al-Jubeir sagði einnig á fréttamannafundinum í dag að stjórnvöld í Tyrklandi hafi ekki verið eins hreinskiptin og þau vilja láta líta út fyrir. „Við höfum beðið vini okkar í Tyrklandi að útvega okkur sönnunargögn sem við getum notað fyrir dómi en höfum ekki fengið þau með þeim hætti sem þau ættu að berast,“ sagði al-Jubeir.

Yfirvöld í Tyrklandi telja að 15 manna drápssveit hafi verið send til Istanbúl til að ráða Khashoggi af dögum. Tyrklandsforseti Erdogan hefur sagt að fyrirskipunin um morðið hafi komið frá úr æðstu röðum stjórnvalda í Sádi-Arabíu en hefur einnig tekið fram að krónprinsinn Salman hafi ekki verið viðriðinn málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert