Afklæddust á toppi pýramídans mikla

Stranglega bannað er að klífa pýramídana.
Stranglega bannað er að klífa pýramídana. AFP

Yfirvöld í Egyptalandi hafa nú til skoðunar myndband þar sem danskt par virðist hafa klifið pýramídann mikla og setið fyrir nakið, en myndbandið hefur vakið mikla reiði meðal egypsku þjóðarinnar. BBC greinir frá.

Saksóknarar ætla að leggja mat á hvort myndskeiðið geti verið raunverulegt, og þá hvernig parinu tókst að klífa 140 metra háan pýramídann, en egypsk stjórnvöld höfðu áður fullyrt að myndbandið væri falsað.

Pýramídinn mikli í Gísa er eitt af sjö undrum veraldar, en stranglega bannað er að klífa hann, auk þess sem ráðherra minja í Egyptalandi segir myndbandið siðsemisbrot. Fólk víðs vegar að úr heiminum hefur fordæmt atvikið ásamt Egyptum og sagt gjörninginn móðgun við egypska menningu og menningararfleifð.

Danski ljósmyndarinn Andreas Hvið birti myndbandið á YouTube, en þar sést kona klífa pýramídann. Andlit konunnar hefur verið gert óskýrt, en í myndbandinu er einnig mynd af parinu saman á 4.500 ára gömlum pýramídanum. Því næst sést konan, sem snýr baki í myndavélina, fara úr bolnum og að lokum má sjá ljósmynd af parinu þar sem þau liggja saman, nakin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert