Auglýsa kol á loftslagsráðstefnunni

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Stjórn hans ætlar að nota loftslagsráðstefnuna til …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Stjórn hans ætlar að nota loftslagsráðstefnuna til að sýna hvernig hvernig nota megi jarðefnaeldsneyti á hreinan og skilvirkan hátt. AFP

Forsvarsmenn bandarískra stjórnvalda mættu í dag á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem þessa dagana fer fram í Katowice í Póllandi til að hvetja til aukinnar notkunar kola og annars jarðefnaeldsneytis. Segir BBC 415 fjárfesta sem samtals annist fjárfestingar fyrir um 32 billjónir dollara, vera á sama tíma að hvetja til þess að hætt verði að nota kol sem orkugjafa.

Búist er við að Wells Griffith, orkumálaráðgjafi Trumps, taki þátt í ráðstefnunni.

Ráðherrar frá 130 ríkjum sitja loftslagsráðstefnuna næstu daga, en þar á að reyna að ganga frá reglu­verki varðandi inn­leiðingu Par­ís­ar­samn­ings­ins. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra Íslands er meðal þeirra sem taka þátt í ráðstefnunni.

Rétt eins og fyrir loftslagsráðstefnuna í fyrra þá er Trump ákveðinn í að sýna áframhaldandi notkun jarðefnaeldsneytis stuðning sinn. Segir í yfirlýsingu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu að þarlend yfirvöld muni nota ráðstefnuna til að sýna „hvernig nota megi jarðefnaeldsneyti á eins hreinan og skilvirkan hátt og mögulegt sé, sem og notkun útblásturslausrar kjarnorku“.

Lou Leonard hjá World Wildlife Fund-samtökunum segir uppákomu Bandaríkjanna gera lítið annað en draga úr trúverðugleika bandarískra stjórnvalda á ráðstefnunni. „Þetta mun ekki hafa nein áhrif á viðræðurnar sjálfar. Þetta er hliðarsýning, hliðarviðburður sem tengist ekki einu sinni því sem er nú verið að ræða um,“ sagði Leonard.

Heimurinn tekur á hinni raunverulegu ógn

415 fjárfestar sem samtals annast fjárfestingar fyrir um 32 billjónir dollara hafa nýtt loftslagsráðstefnuna til að tilkynna að þeir ætli ekki að fjárfesta frekar í kolaiðnaði. Meðal fyrirtækja sem standa að yfirlýsingunni eru Schroders plc, BNP Paribas Asset Management, Aberdeen Standard Investments og UBS Asset Management.

„Þrátt fyrir misráðna stefnu stjórnar Trumps er heimurinn að taka á hinni raunverulegu ógn sem efnahagnum, fjármálamarkaðnum og fjárfestum stafa af loftslagsbreytingum,“ hefur BBC eftir Thomas P. DiNapoli, hjá New York State Comptroller, sem sér um lífeyrissjóð New York ríkis sem nemur um 207 milljörðum dollara.

„Við erum enn og munum áfram vera staðráðin í að styðja markmið Parísarsamningsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert