May frestar Brexit-atkvæðagreiðslunni

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Th­eresa May, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, hefur frestað at­kvæðagreiðslu breska þings­ins um út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu.

„Samningnum yrði hafnað naumlega. Því hefur atkvæðagreiðslunni, sem áætluð er á morgun, verið frestað,“ sagði May á breska þinginu fyrir stundu.

Ekki er ljóst hvenær atkvæðagreiðslan mun fara fram en May hyggst ræða samninginn og möguleg næstu skref við leiðtoga Evrópusambandsins við fyrsta tækifæri.

May kveðst ætla að nota næstu daga til þess að fara yfir gagnrýni og áhyggjur sem þingmenn hafa varðandi samninginn í tilraun til þess að efla stuðning þingsins. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir May hafa misst stjórn á aðstæðum og að fullkominn glundroði ríki innan ríkisstjórnarinnar.

Í kjölfar nýlegra fregna af mögulegri seinkun atkvæðagreiðslunnar hefur gengi breska pundsins veikst um 0,5% gagnvart Bandaríkjadal og 0,8% gagnvart evru og hefur gengi þess ekki verið lægra í átján mánuði.

Umfjöllun BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert