Risakengúran Roger fallin frá

Roger var yfir tveggja metra hár og vó 89 kíló.
Roger var yfir tveggja metra hár og vó 89 kíló. Ljósmynd/Alice Springs Kangaroo Sanctuary

Kengúran Roger, sem vakti heimsathygli fyrir stærð sína og líkamsbyggingu, er öll, en Roger var orðinn tólf ára gamall. Honum var bjargað eftir að móðir hans varð fyrir bíl og var alinn upp á verndarsvæði fyrir kengúrur í Alice Springs í Ástralíu. BBC greinir frá.

Roger óx hratt úr grasi og varð yfir tveggja metra hár og vó 89 kíló. Hann varð forystukengúra á svæðinu og átti tólf maka, en alls njóta 50 kengúrur verndar hjá Alice Springs.

Kengúrur geta náð allt að fjórtán ára aldri, en Roger hafði glímt við liðagigt og versnandi sjón um nokkurt skeið áður en hann safnaðist til feðra sinna.

Ekki er óalgengt að kengúrur byggi upp vöðvamassa eins og Roger, en stærð hans vakti mikla athygli. Hann varð fyrst heimsfrægur árið 2015 þegar ljósmyndir af honum að kremja járnfötu voru birtar á vef Alice Springs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert