Skoða möguleg tengsl Rússa við andlátin

Dauði kaupsýslumannsins Scot Young var úskurðaður sjálfsvíg. Nú er málið …
Dauði kaupsýslumannsins Scot Young var úskurðaður sjálfsvíg. Nú er málið hins vegar talið grunsamlegt. AFP

Breska lögreglan hefur nú opnað á ný á rannsókn í tveimur grunsamlegum dauðsföllum eftir að í ljós komu tengsl við GRU, leyniþjónustu rússneska hersins, að því er sunnudagsútgáfa breska dagblaðsins Times greinir frá.

Skilgreinir lögregla dauðsföllin nú sem „grunsamleg“.  Segir blaðið lögreglumenn sem rannsökuðu morðtilræðið á rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans hafa komist yfir upplýsingar sem bendi til þess að fleiri hafi fallið fyrir hendi rússneskra morðingja eftir að umfjöllun vefmiðilsins Bellingcat kom lögreglunni á sporið.

Stjaksettur á járngrindverki

Annað dauðsfallanna sem nú er til rannsóknar er andlát kaupsýslumannsins Scot Young sem eftirmiðdag einn féll út um glugga á íbúð sinni í einu efnameiri hverfa London og lenti á járngirðingu þar sem hann var stjaksettur. Þurfti lögregla að fjarlægja hluta grindverksins til að koma honum á brott. Á sínum tíma var málið afgreitt sem sjálfsvíg og því lokað fljótt.

Dauði kaupsýslumannsins Alexander Perepilichnyy er hitt málið sem nú er til skoðunar. Perepilichnyy hafði borðað súpu og ældi því næst grænu galli áður en hann missti meðvitund fyrir utan heimil sitt í Surrey og lést hann skömmu síðar.

Young átti að sögn Times í vafasömum viðskiptum við rússneska fjárfesta og Perepilichnyy hafði ljóstrað upp um svik innan rússnesku stjórnarinnar.

Mál rússneska gagnnjósnarans Sergei Skripal hefur beint athygli breskra lögregluyfirvalda …
Mál rússneska gagnnjósnarans Sergei Skripal hefur beint athygli breskra lögregluyfirvalda að leyniþjónustu rússneska hersins GRU. AFP

Málið vandræðalegt fyrir lögreglu

Segir Times búist við að Lundúnalögreglan muni nú viðurkenna að sum þeirra dauðsfalla sem áður hafi verið hafnað að ástæða væri til að skoða betur væru í raun „grunsamleg“ og að óskað yrði á ný eftir vitnum að atburðunum.

Að sögn blaðsins væri slík viðurkenning vandræðaleg fyrir lögreglu sem hafi ítrekað fullyrt að ekkert grunsamlegt hafi verið við dauða mannanna þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir fjölskyldna þeirra um að málin yrðu tekin til rannsóknar á ný.

Eru fulltrúar GRU sagðir hafa verið á ferð í Bretlandi á þeim tíma sem mennirnir létust og er talið að eftir að upplýsingar um vegabréfaáritanir mannanna og aðrar persónuupplýsingar fundust á netinu í tengslum við tilræðið við Skripal og sem Bellingcat birti frétt um, hafi sá fundur veitt lögreglu vísbendingar um meint athæfi annarra rússneskra leyniþjónustumanna í Bretlandi.

Vissi alltaf að hann hefði verið myrtur

„Ég vissi alltaf að hann hefði verið myrtur,“ sagði fyrrverandi eiginkona Young, Michelle Young, í síðustu viku. Hún hefur ítrekað haldið því fram að Young hafi verið hrakinn út um gluggann á íbúð sinni, þrátt fyrir fullyrðingar lögreglu um annað.

Eru fréttirnar af meintri aðild GRU að dauða fleiri en Skripals í Bretlandi sagðar líklegar til að auka enn frekar á spennu í samskiptum breskra og rússneskra stjórnvalda. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur til þessa sagt fullyrðingar um að rússnesk stjórnvöld standi að baki tilræðinu við Skripal vera „vitleysu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert