13 ára fangelsi fyrir að afhenda trúnaðargögn

Réttarhöldin yfir Zhitnyuk voru lokuð. Myndin er úr safni.
Réttarhöldin yfir Zhitnyuk voru lokuð. Myndin er úr safni. AFP

Dómstóll í Moskvu hefur dæmt fyrrverandi rússneskan lögreglumann í 13 ára fangelsi fyrir landráð en hann var sakfelldur fyrir að hafa afhent meintum norskum njósnara, Frode Berg, trúnaðargögn sem vörðuðu rússneska sjóherinn.

Zhitnyuk mun afplána dóminn í fanganýlendu að sögn rússnesku fréttastofunnar Interfax. 

Norðmaðurinn Berg var einnig handtekinn í Rússlandi og bíður hann nú eftir því að réttað verði í málinu. Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum Rússa og Norðmanna vegna málsins. 

Berg var handtekinn í Moskvu í desmber í fyrra í kjölfar aðgerðar rússnesku FSB-leyniþjónustunnar.

Fram kemur í frétt AFP, að samskipti rússneskra og norskra stjórnvalda hafi verið góð í gegnum tíðina en þau versnuðu til muna árið 2014 þegar Rússar hófu hernaðaraðgerðir í Úkraínu. 

Árið 2016 tilkynntu norsk stjórnvöld að 330 landgönguliðar yrðu staðsettir á svæði sem var um 1.000 km frá landamærum Rússlands. 

Rússar héldu því fram að þetta væri ekki til að gera Norður-Evrópu öruggari. 

Í nóvember sökuðu Norðmenn Rússa um að trufla GPS-merki nyrst í Noregi þegar Norðmenn stóðu fyrir stórri sameiginlegri NATO-heræfingu á þessu ári. 

Þá handtóku Norðmenn rússneskan karlmann sem var sakaður um njósnir í norska þinghúsinu. Honum var síðar sleppt þar sem rannsakendum mistókst að sannfæra dómara um að þeir væri með mál í höndum gegn manninum.

Í fyrra greindi norska leyniþjónustan frá því að utanríkisráðuneytið, herinn og aðrar opinberar stofnanir hefðu orðið fyrir barðinu á tölvuárásum hóps sem var sagður vera með tengsl við rússnesk yfirvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert