Trump óttast ákæru er demókratar taka við

Donald Trump Bandaríkjaforseti með kosningastjóra sínum Kellyanne Conway. CNN segir …
Donald Trump Bandaríkjaforseti með kosningastjóra sínum Kellyanne Conway. CNN segir forsetann óttast að hann eigi ákæru yfir höfði sér þegar demókratar taka við fulltrúadeild þingsins. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýsti yfir áhyggjum af að hann geti átt ákærur yfir höfði sér þegar Demókrataflokkurinn tekur yfir fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Fréttastofa CNN hefur þetta eftir heimildamanni nánum forsetanum, sem segir Trump telja ákæru vera „raunverulegan möguleika“.

Demókrataflokkurinn náði meirihluta í fulltrúadeildinni í þingkosningum sem fram fóru í Bandaríkjunum í haust.

Heimildamaðurinn segir forsetann þó ekki vissan um að til ákæru komi.

CNN hefur eftir öðrum heimildamanni í Hvíta húsinu að þar telji ráðgjafar forsetans að „eina málið sem kunni að halda“ varðandi ákæru sé brot á notkun fjármuna í kosningabaráttunni vegna greiðslna Michael Cohens, fyrrverandi lögfræðings forsetans, til kvenna sem Trump á að hafa átt í sambandi við.

Demókratar eru sagðir hafa gefið í skyn að Trump hafi gerst sekur um brot sem ákæra megi hann fyrir og sem gætu haft í för með sér fangelsisdóm fyrir forsetann þegar kjörtímabilinu lýkur.

Repúblikanaþingmaðurinn Jerry Nadler, sem mun taka við formennsku í dómsmálanefnd þingsins, sagði á sunnudag að teldust ásakanirnar sannar fælu þær í sér brot sem ákæra gæti legið við. Þá sagði demókrataþingmaðurinn Chris Coons í gær að hægt væri að ákæra Trump eftir að hann lætur af embætti.

Óttast ekki ákæru vegna rannsóknar Muellers

Cohen greindi fyrst frá því í september að Trump hefði gert honum að greiða þeim Stormy Daniels og Karen McDougal fé. Sagði saksóknari í máli Cohens á föstudag að hann ætti að hljóta langan dóm fyrir glæpi sína sem m.a. fælu í sér brot á lögum um fjármögnun kosningaherferða, greiðslur til kvennanna tveggja, skattasvik og fyrir að ljúga frammi fyrir þingheimi.

CNN segir embættismenn í Hvíta húsinu hins vegar eins og er ekki telja að rannsókn Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016, muni leiða til ákæru gegn forsetanum. Þá telja þeir ákæru vegna fjármálamisferlis tengdu kosningabaráttunni ekki vera nógu alvarlega til að auka stuðning við að Trump verði sóttur til saka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert