„Ég vil ekki fara aftur til Barein“

Hakeem Alaraibi var leiddur fyrir dómara í morgun.
Hakeem Alaraibi var leiddur fyrir dómara í morgun. AFP

Knattspyrnumaður frá Barein, sem fékk hæli í Ástralíu í fyrra og var handtekinn í Taílandi í lok nóvember, er enn í varðhaldi þar í landi. Mannréttindasamtök óttast um líf hans verði hann sendur aftur til Barein.

Hakeem Alaraibi var handtekinn í Barein árið 2012 en fékk pólitískt hæli í Ástralíu fimm árum síðar. Alaraibi segist hafa verið í miðjum knattspyrnuleik þegar hann var sakaður um að hafa unnið skemmdarverk á lögreglustöð í heimalandinu.

Alaraibi, sem er 25 ára, leikur knattspyrnu með liðinu Pascoe Vale FC í Ástralíu en var handtekinn í Taílandi þar sem hann var á ferðalagi með eiginkonu sinni. Þar hefur honum verið haldið síðan á meðan yfirvöld í Ástralíu og Barein hafa bæði óskað eftir því að fá hann framseldan.

Lögmaður Alaraibi, Nadthasiri Bergman, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að dómstóll hafi úrskurðað hann í 60 daga varhald í Taílandi. Enn fremur sagðist hún bjartsýn á að hann yrði ekki framseldur til Barein vegna þess að margt bendi til þess að þar bíði hans óblíðar móttökur.

„Taíland og Barein vinna að því að fá mig sendan aftur til Barein en Ástralía stoppaði þá. Ég vil ekki fara aftur til Barein, ég vil fara aftur til Ástralíu. Ég gerði ekkert af mér í Barein,“ sagði Alaraibi áður en hann var leiddur fyrir dómara.

Utanríkisráðherra Ástralíu, Marise Payne, óskaði eftir því um helgina að Alaraibi yrði þegar í stað sendur aftur til Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert