Ætlar að berjast gegn vantrauststillögu

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segist munu berjast gegn vantrauststillögu þingmanna í sinn garð af öllum kröftum, að því er BBC greinir frá. Greint var frá því nú í morgun að þingmenn Íhaldsflokksins greiði í kvöld atkvæði um það hvort lýsa eigi yfir vantrausti gegn May.

48 þing­menn höfðu þá skilaði inn van­trausts­yf­ir­lýs­ingu í garð May, en það er for­senda þess að van­traust­stil­laga gegn for­sæt­is­ráðherra sé tek­in fyr­ir.

Í yfirlýsingu sem May sendi frá sér í kjölfarið segir hún: „Ég mun berjast gegn þessari atkvæðagreiðslu af öllum mínum kröftum.“ Sagði hún nýjan forsætisráðherra verða annaðhvort að framlengja eða hætta við 50. viðauka Lissabon-sáttmálans sem fjallar um útgöngu úr ESB. Muni slíkt að mati May annaðhvort seinka eða jafnvel stöðva fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr ESB.

Lofar þjóðaratkvæðagreiðslu 

Sagði forsætisráðherrann að verði ákveðið að skipta um leiðtoga Íhaldsflokksins sé „framtíð landsins stefnt í hættu og sköpuð óvissa þegar við höfum síst efni á því“.

„Þær vikur sem við rífumst innbyrðis munu bara auka klofning á þeim tíma sem við ættum að vera sameinuð í að verja land okkar. Slíkt mun ekki þjóna hagsmunum þjóðarinnar,“ sagði í yfirlýsingunni.

Fullyrti May því næst að viðræður hennar við leiðtoga ESB væru að skila árangri og hét því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og grípa tækifærin sem séu fram undan.

Íhaldsflokkurinn verði að reisa framtíð sem virki fyrir alla og veita þjóðinni útgönguna sem hún kaus um.

„Ég hef helgað mig þessu verkefni á ósérhlífinn hátt frá því ég tók við sem forsætisráðherra og er tilbúin að ljúka verkinu.“

May verður að fá meiri­hluta at­kvæða eigi hún að halda stöðu sinni. Fái hún nauðsyn­leg­an meiri­hluta geta þing­menn flokks­ins ekki lýst yfir van­trausti í garð May næsta árið. Verði úr­slit hins veg­ar á hinn veg­inn verður flokks­for­yst­an dreg­in í efa og mun hún þá þurfa að segja af sér.

Fari May með naum­an sig­ur af hólmi í at­kvæðagreiðslunni get­ur þó einnig farið svo að hún ákveði að segja af sér. 

Theresa May les upp yfirlýsingu sína fyrir framan forsætisráðherrabústaðinn við …
Theresa May les upp yfirlýsingu sína fyrir framan forsætisráðherrabústaðinn við Downingstræti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert