Fyrst reiði svo samúð

Sendillinn náðist á myndband að borða mat sem hann var …
Sendillinn náðist á myndband að borða mat sem hann var að sendast með. Skjáskot

Samúð og stuðningsyfirlýsingum hefur rignt yfir indverska sendilinn sem rekinn var úr starfi fyrir að borða af matnum sem hann var að sendast með. 

Mynd af sendlinum við iðju sína náðist í borginni Madurai í suðurhluta Indlands. Á því má sjá mann, sem er klæddur stuttermabol merktum fyrirtækinu Zomato, borða mat úr boxi og setja það svo aftur ofan í poka sem hann er að sendast með.

Í fyrstu reiddust margir er myndbandið var birt en á það hefur verið horft mörg þúsund sinnum. Vildi fólk að Zomato myndi bregðast við, fólk vildi ekki að sendlarnir væru að snerta á mat sínum. 

Fyrirtækið sendi svo frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að þó að hér hefði um mannleg mistök sendilsins verið að ræða væri búið að segja honum upp störfum.

En þá breyttist umræðan um málið. Margir voru mjög ósáttir við þessi málalok og viðbrögðin breyttust i samúð  með sendlinum sem enn hefur ekki verið nafngreindur.

Bent var á að sendlar ynnu langan vinnudag við erfiðar aðstæður og léleg laun. Mikil samkeppni sé milli fyrirtækja sem sendast með mat fyrir veitingastaði og óraunhæfar kröfur gerðar á starfsmenn.

Þó að margir fagni umræðu um aðbúnað þessa verkafólks segja þeir að hvað sem því líði eigi starfsmenn ekki að borða af þeim mat sem þeir eru að sendast með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert