Hrækti framan í jólaálf

Jólaálfunum varð ekki meint af atvikinu. Mynd úr safni.
Jólaálfunum varð ekki meint af atvikinu. Mynd úr safni. AFP

Bálill móðir tók upp á því að hrækja framan í jólaálf í verslunarmiðstöð í Bretlandi þegar henni var meinað að fara með son sinn inn í jólahelli síðastliðinn laugardag.

BBC greinir frá því að atvikið hafi átt sér stað í Castlegate-verslunarmiðstöðinni í bænum Stockton-on-Tees. Móðirin mun einnig hafa kallað aðra jólaálfa á svæðinu öllum illum nöfnum og segir framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar atvikið alls ekki í takt við jólaandann.

Samkvæmt lögreglu á svæðinu átti atvikið sér stað þegar jólahellirinn var gerður hentugur börnum með einhverfu með því að draga úr ljósum og tónlist. Þegar svo á við þarf að panta tíma í hellinn og var það þess vegna sem móðurinni og syni hennar var meinaður aðgangur.

Jólaálfunum varð ekki meint af atvikinu, en fjöldi fólks er miður sín vegna þess. Lögregla vinnur að því að taka skýrslur af vitnum vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert