Stormy greiði lögfræðikostnað Trump

Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Daniels var í …
Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Daniels var í gær gert að greiða 75% af lögfræðikostnaði forsetans vegna máls sem hún höfðaði gegn honum. AFP

Bandarískur dómari hefur skipað klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels að endurgreiða lögfræðikostnað Donald Trumps Bandaríkjaforseta eftir að meiðyrðamáli hennar gegn forsetanum var vísað frá dómi.

Daniels, sem hefur játað að hafa stundað kynlíf með Trump árið 2006, höfðaði mál gegn forsetanum eftir að hann hæddist að þeirri fullyrðingu hennar að ókunnur maður hefði haft í hótunum við hana þegði hún ekki um samband sitt við forsetann.

Úrskurðaði dómari í gær að Daniels ætti að greiða rúmlega 293.000 dollara, sem er um 75% af lögfræðikostnaði Trumps. BBC  segir lögfræðing forsetans hafa fagnað úrskurðinum og sagt um „fullkominn sigur“ að ræða.

Dómarinn hafnaði hins vegar þeirri kröfu Charles Harder, lögfræðings Trumps, að Daniels yrði gert að greiða „verulegar refsibætur“, en hann hafði farið fram á 800.000 dollara greiðslu eftir að máli hennar var vísað frá. 

Michael Avenatti, lögfræðingur Daniels, sagði á Twitter í gær að úrskurður dómarans „muni aldrei standast áfrýjun“, en Avenatti fer með fleiri mál leikkonunnar gegn forsetanum m.a. um að fá hnekkt samningi um að hún tjái sig ekki um samband sitt við Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert