Trump segist geta hlutast til um mál Meng

Meng Wanzhou, fjár­mála­stjóri raftækjaframleiðandans Huawei, í dómsal í Kanada í …
Meng Wanzhou, fjár­mála­stjóri raftækjaframleiðandans Huawei, í dómsal í Kanada í gær. AFP

Meng Wanzhou, fjár­mála­stjóri raftækjaframleiðandans Huawei sem var hand­tek­in í Kanada í byrjun mánaðarins, var í gær látin laus úr haldi gegn tryggingagreiðslu sem nemur 10 milljónum Kanadadollara (rúmlega 920 milljónir kr.). Meng sætir þó enn farbanni og er gert að vera með ökklaband og vera undir eftirliti lögreglu allan sólarhringinn.

Bandarísk yfirvöld hafa farið fram á að fá Meng framselda til Bandaríkjanna, en þarlend yfirvöld telja Huawei hafa brotið gegn viðskiptabanninu við Íran. Sjálf hafnar Meng, sem er dóttir stofnanda Huawei og varaformaður stjórnar fyrirtækisins, öllum slíkum ásökunum.

Handtaka Meng hefur vakið mikla reiði hjá kínverskum ráðamönnum og hefur aukið nokkuð á spennuna í samskiptum Kína og Bandaríkjanna og Kína og Kanada.

Hand­taka Meng á sér stað á viðkvæm­um tíma í sam­skipt­um Banda­ríkj­anna og Kína sem átt hafa í viðskipta­stríði und­an­farið og hafa bæði ríki sett háa tolla á varn­ing hvort ann­ars. Það virt­ist þó vera að rofa til áður en Meng var handtekinn og höfðu Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti og Xi Jin­ping Kína­for­seti ný­lega samþykkt að samn­inga­nefnd­ir sett­ust niður og tækju sér 90 daga til að reyna að ná sam­komu­lagi. 

Trump sagðist í gær geta gripið inn í mál Meng yrði það til að forðast aukna spennu í samskiptum ríkjanna. „Ég mun gera það sem er gott fyrir landið okkar,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert