Er Little afkastamesti morðingi Bandaríkjanna?

Samuel Little er talinn vera á meðal afkastamestu raðmorðingja í …
Samuel Little er talinn vera á meðal afkastamestu raðmorðingja í sögu Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska lögreglan hefur staðfest að 78 ára flækingur kunni að vera einn afkastamesti raðmorðingi í sögu Bandaríkjanna. Búið er að staðfesta að hann hafi myrt rúmlega 40 manns.

Maðurinn, Samuel Little, hefur játað að hafa drepið 90 manns á árabilinu 1970-2005. Segir hann fórnarlömbin flest hafa verið fíkniefnaneytendur og vændiskonur og segist hann hafa myrt þau víðs veg­ar í Banda­ríkj­un­um, allt frá Los Ang­eles á vest­ur­strönd­inni til Miami á aust­ur­strönd­inni.

Bobby Bland, umdæmissaksóknari í Ector-sýslu í Texas, þar sem Little er í varðhaldi, tilkynnti í dag að undanfarnar tvær vikur sé búið að staðfesta játningu Little á sex morðum til viðbótar og að fórnarlömbin séu þar með orðin yfir 40 talsins.

„Vegna vinnu lögregluembætta víða um landið hafa tugir fjölskyldna fórnarlambanna nú fengið svör,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Bland. 

Little játaði morðin 90 í sam­tali við lög­reglu­mann í Texas þegar óleyst morðmál barst í tal en upp­haf­leg­ur til­gang­ur sam­tals þeirra var beiðni Little um að vera færður milli fang­elsa.

Sagði í fyrri yfirlýsingu frá FBI að Little muni eftir fórnarlömbum sínum og morðunum í minnstu smáatriðum.

Takist að staðfesta að Little hafi framið öll 90 morðin sem hann hefur játað að hafa framið er hann afkastamesti raðmorðingi í sögu Bandaríkjanna svo vitað sé.

Little, sem var boxari á árum áður, hef­ur setið í fang­elsi frá 2012 þegar hann var hand­tek­inn í at­hvarfi fyr­ir heim­il­is­lausa í Kentucky vegna fíkni­efna­brots. DNA-sýni sem tekið var af hon­um af því til­efni tengdi hann við óleyst morðmál þriggja kvenna í Los Ang­eles á ní­unda ára­tugn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert