Samningurinn afgreiddur í janúar

mbl.is/Hjörtur

Breskir þingmenn munu greiða atkvæði um samning Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um útgöngu landsins úr sambandinu í janúar. Þetta kemur fram í dagskrá sem birt var í dag af Andreu Leadsom, leiðtoga neðri deildar breska þingsins.

Til stóð að greiða atkvæði um samninginn á þriðjudaginn síðasta en fallið var frá því vegna mikillar andstöðu við hann, ekki síst úr röðum þingmanna Íhaldsflokksins sem May veitir forystu. Fram kemur í frétt AFP að næsta vika fari í það að ganga frá annarri löggjöf sem afgreiða þurfi fyrir jólaleyfi og síðan fari þingmenn í leyfi til 7. janúar.

May hefur heitið því að greidd verði atkvæði um útgöngusamninginn fyrir 21. janúar. Hún stóðst vantrauststillögu úr röðum eigin þingmanna í gær en hún er talin standa mjög höllum fæti í kjölfarið þar sem yfir þriðjungur þeirra lýsti vantrausti á hana.

May hyggst funda með leiðtogum Evrópusambandsins á næstu dögum og gera breska þinginu síðan grein fyrir þeim fundum næsta mánudag. Forystumenn sambandsins hafa hafnað því að gera efnislegar breytingar á útgöngusamningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert