Skoða greiðslur til aðstoðarmanns Bolsonaros

Jair Bolsonaro nýkjörinn forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro nýkjörinn forseti Brasilíu. AFP

Jair Bolsonaro, sem var nýlega kjörinn forseti Brasilíu, og fjölskylda hans eru nú undir smásjá yfirvalda eftir að fjármálaglæpadeild stjórnarinnar tók að spyrja út í peningafærslur til og frá aðstoðarmanni sonar hans, að andvirði um 300.000 dollara.

Bolsonaro, sem tekur við embætti forseta 1. janúar á næsta ári fór mikinn í kosningabaráttu sinni sem baráttumaður hægriafla gegn spillingu. Hann viðurkenndi á Facebook í gær að verið væri að skoða greiðslur aðstoðarmannsins Fabricio Jose de Queiroz.

„Ef ég gerði einhver mistök, sonur minn eða Quieroz þá verður sá reikningur greiddur, af því að við getum ekki látið festa okkur í mistökum einhvers,“ sagði Bolsonaro.

„Þetta særir af því að það sem við höldum ákafast á lofti er baráttan gegn spillingu og hvað sem á eftir að verða mun ég berjast gegn spillingu með öllum ráðum sem ríkisstjórnin hefur þegar ég er orðinn forseti.“

Sonur Bolsonaros, Flavio Bolsonaro, er þingmaður Rio de Janeiro-fylkis og mun verða öldungadeildarþingmaður fylkisins á næsta ári. Í kjölfar færslu Bolosanaros sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann fullyrti að hann hefði „ekki gert neitt af sér“, né heldur væri honum kunnugt um hvað Quieroz gæti hafa flækst í. 

Fordæmdi hann því næst fjölmiðla fyrir að ráðast aðeins gegn sér, en ekki aðstoðarmönnum annarra þingmanna. Sagði hann fjölmiðla setja óvenjumikinn kraft í að skaða orðspor hans í því skyni að koma höggi á hinn nýkjörna forseta.

Málið snýst um peningafærslur að andvirði 300.000 dollara til og frá Queiroz, lögreglufulltrúa sem árum saman starfaði sem bílstjóri og lífvörður Flavio Bolsonaros. Vöktu greiðslurnar grunsemdir af því að þær voru mun hærri en tekjur hans.

Þá eru einnig til skoðunar greiðslur að andvirði 6.200 dollara sem Quieroz greiddi inn á reikning eiginkonu Bolsonaros, Michelle Bolsonaro. Segir Jair Bolsonaro um að ræða endurgreiðslu á láni sem hann hafi veitt aðstoðarmanni sonar síns, enn ekki gefið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert