Spavor, Kovrig og Meng

Michael Spavor og Dennis Rodman.
Michael Spavor og Dennis Rodman. AFP

Allt bendir til þess að tveir Kanadamenn séu í haldi kínverskra yfirvalda og er kanadíska utanríkisráðuneytið með málið í rannsókn.

Kanadískur kaupsýslumaður sem er búsettur í Dandong, Michael Spavor, hafði samband við kanadísk yfirvöld í vikunni og lét vita að hann hefði verið yfirheyrður af kínverskum yfirvöldum. Dandong er skammt frá landamærum Norður-Kóreu.

Michael Kovrig.
Michael Kovrig. AFP

Talsmaður kanadíska utanríkisráðuneytisins, Guillaume Bérubé, segir í samtali við BBC að kanadísk yfirvöld séu að reyna að hafa uppi á Spavor og hvar honum sé haldið. Fyrr í vikunni var fyrrverandi stjórnarerindreki Kanada, Michael Kovrig, handtekinn í Kína. Ekki er vitað hvers vegna hann var handtekinn, segja kanadísk yfirvöld. 

Samkvæmt kínverskum ríkisfjölmiðlum er Kovrig grunaður um að hafa ógnað öryggi kínverska ríkisins.

Kovrig starfar fyrir alþjóðlega hugveitu, International Crisis Group (ICG), og hafa stjórnendur ICG lýst yfir áhyggjum af heilsu hans og öryggi. Á blaðamannafundi í Ottawa í gær sagði utanríkisráðherra Kanada, Chrystia Freeland, að mál Kovrig sé rætt við æðstu embættismenn landsins. Fyrr í vikunni hafi annar kanadískur einstaklingur haft samband vegna þess að hann hafi verið yfirheyrður af kínverskum yfirvöldum. Hún nafngreindi hann ekki en Bérubé nafngreindi hann síðar í yfirlýsingu ráðuneytisins og að hans væri saknað í Kína.

Michael Spavor ásamt Kim Jong-un.
Michael Spavor ásamt Kim Jong-un. AFP

Kínverskir ríkisfjölmiðlar staðfestu í morgun að Spavor væri einnig grunaður um að ógna þjóðaröryggi í Kína og væri í haldi.

Spavor stýrir samtökum sem nefnast Paektu Cultural Exchange, sem skipuleggja ferðir í viðskipta-og menningarlegum tilgangi auk ferðalaga ferðamanna til Norður-Kóreu.

Spavor fer mjög oft til Norður-Kóreu og er oft rætt við hann af fjölmiðlum varðandi málefni Norður-Kóreu. Hann annaðist meðal annars ferðalög fyrrverandi NBA-körfuboltastjörnunnar, Dennis Rodman til Norður-Kóreu. Rodman er persónulegur vinur leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un.

Á sunnudag skrifaði hann á Twitter að hann væri að fara til Seúl í Suður-Kóreu en hann kom aldrei þangað. Kanadamennirnir voru handteknir í kjölfar þess að kanadísk yfirvöld handtóku fjármálastjóra kínverska fjarskiptafyrirtækisins Huawei, Meng Wanzhou, í síðustu viku. Hún er dóttir stofnanda fyrirtækisins og var handtekin að beiðni bandarískra yfirvalda. Þau saka hana um að hafa brotið gegn viðskiptabanni við Íran. Meng var látin laus gegn tryggingu á þriðjudag en á yfir höfði sér framsal til Bandaríkjanna.

Meng Wanzhou.
Meng Wanzhou. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert