Túrtapparnir festast í leggöngunum

Einhverjar konur hafa þurft að leita til læknis til að …
Einhverjar konur hafa þurft að leita til læknis til að losa tappana úr leggöngunum. mbl.is/ Þorvaldur Örn Kristmundsson

Bandaríska hreinlætisvörufyrirtækið Kimberly-Clark hefur innkallað ákveðna tegund af túrtöppum eftir að hafa fengið kvartanir um að þeir losni í sundur og festist inni í leggöngum kvenna. BBC greinir frá.

Um er að ræða túrtappa af gerðinni Kotex Sleex, en einhverjir notendur hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar til að losa tappana úr leggöngunum.

Kimberly-Clark sendi frá sér fréttatilkynningu vegna málsins þar sem allar konur sem upplifðu einhver óþægindi af völdum tappanna, eins og blæðingar eða kláða, voru hvattar til að leita til læknis.

Þá var jafnframt bent á að ef túrtappar væru hafðir of lengi inni í leggöngunum gætu komið fram eitrunaráhrif sem gætu leitt til sýkingar eða toxic shock syndrome (TSS). Einkennin væru meðal annars hitakóf, verkir, ógleði og uppköst. Þær konur sem upplifðu slík einkenni eftir notkun tappanna voru einnig hvattar til að leita tafarlaust til læknis.

Fjölmörg slík tilfelli hafa komið upp í Bandaríkjunum í tengslum við túrtappanotkun, en þeim hefur fækkað á síðastliðnum árum. Sé sýkingin ekki meðhöndluð getur hún leitt til lifrar- og nýrnabilunar og jafnvel dregið konur til dauða.

TSS tengist hins vegar túrtappanotkun almennt, en ekki bara vörum frá Kimberly-Clark.

Óþægindi sem konur hafa verið að upplifa vegna notkunar á túrtöppum af gerðinni Kotex Sleex U eru þó nógu mikil til að innköllun teljist nauðsynleg. Þeir sem eiga slíka tappa í fórum sínum eruð beðnir um að skila þeim til næsta söluaðila og þá eru verslanir beðnar um að taka tappana úr sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert