Hjarta gleymdist um borð

Flugvél frá Southwest Airlines.
Flugvél frá Southwest Airlines. AFP

Bandarísk farþegaflugvél á leiðinni frá borginni Seattle til Dallas þurfti að snúa við nokkrum klukkustundum eftir flugtak vegna þess að mannshjarta hafði gleymst um borð.

Að sögn Southwest Airlines var flogið með líffærið frá Kaliforníu til Seattle. Þar átti að flytja það á sjúkrahús og nýta úr því hjartaloku til þess að nota í aðgerð síðar meir. Hjartað gleymdist aftur á móti í vélinni og uppgötvaðist ekki að það vantaði fyrr en flugvélin var komin hálfa leið til Dallas.

Ekki stóð því til að græða hjartað í einhvern ákveðinn sjúkling. Atvikið átti sér stað á sunnudaginn, að sögn BBC.

Farþegar um borð í vélinni eru sagðir hafa verið furðu lostnir þegar flugstjórinn sagði þeim frá hjartanu og hvers vegna verið væri að snúa flugvélinni við. Sumir notuðu snjallsímana sína til að rannsaka hversu langan tíma má geyma hjarta áður en það er notað í hjartaígræðslu, sem er venjulega á bilinu fjórar til sex klukkustundir, að sögn sérfræðinga.

Flugvélin var í loftinu í um þrjár klukkustundir.

Læknir sem var um borð í flugvélinni en tók ekki þátt í flutningi líffærisins sagði við dagblaðið Seattle Times að þetta væri „hræðilegt dæmi um gríðarlega vanrækslu“.

Eftir að flugvélin var komin aftur til Seattle var hjartað flutt til heilbrigðismiðstöðvar til geymslu og komst það á áfangastað innan tilsetts tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert