11 látnir vegna matareitrunar í Indlandi

Fimm ár eru síðan 23 börn létust vegna matareitrunar í …
Fimm ár eru síðan 23 börn létust vegna matareitrunar í Indlandi. Myndin er úr safni. AFP

Ellefu manns eru látnir og 90 manns til viðbótar voru færðir á sjúkrahús á föstudag eftir að fólkið lagði sér til munns mat í tengslum við trúarathöfn í hofi í Karnataka í Suður-Indlandi. Tvö börn eru meðal þeirra sem létust og grunar lögreglu að eitrað hafi verið fyrir fólkinu.

Reuters greinir frá.

Tvær manneskjur hafa verið yfirheyrðar af lögregluyfirvöldum vegna málsins sem á upphaf sitt að rekja til þess að fólkið kom saman í hindúahofi og borðaði hrísgrjónarétt sem var eldaður í tengslum við helgiathöfn. Minnst ellefu manns létust í kjölfarið og hátt í hundrað manns voru færðir á sjúkrahús til aðhlynningar, margir með niðurgang, ælupest og öndunarerfiðleika.

Fjölmiðlar í Indlandi hafa greint frá því að eitrað hafi verið fyrir fólkinu með skordýraeitri en lögreglan segir að enn sé of snemmt að segja til um orsök eitrunarinnar.

„Við höfum sent líffæri úr þeim látnu sem og matinn sjálfan til skoðunar á rannsóknarstofu. Við getum ekki sagt hvað fór úrskeiðis fyrr en við fáum niðurstöðurnar,“ sagði Geetha MS, yfirlögregluþjónn í Chamarajanagara-héraði þar sem hofið er staðsett, í samtali við Reuters.

Stjórnvöld í Karnataka hafa gefið það út að þau muni útvega fjölskyldum þeirra látnu fjárhagsaðstoð sem nemur 500.000 rúblum sem samsvarar um það bil tæplega 900.000 íslenskum krónum á gengi dagsins í dag.

Aðeins fimm ár eru liðin síðan 23 börn létust í Bihar í Indlandi vegna matareitrunar. Lögregla telur að þá eitrun megi rekja til þess að olía sem notuð var til að elda með hafi verið geymd í íláti sem áður hafði verið notað undir skordýraeitur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert