Búa við stöðugt umsátursástand

AFP

Rotnandi nautgripahúðir sem liggja á veginum er allt og sumt sem er eftir af þremur kúm sem búið er að slátra. Blóðbað á borð við þetta er orðið  nokkuð algengt í þeim fylkjum Venesúela þar sem nautgriparækt hefur verið lifibrauð manna í gegnum tíðina. Nú ógna þjófar, hústökumenn og stefna stjórnvalda þessari fæðuauðlind.

Íbúar landsbyggðarinnar finna ekki síður en borgarbúar í Venesúela fyrir þeirri alvarlegu efnahagskreppu sem ríkir í landinu. Matarbirgðir eru af skornum skammti í borgunum og svo er einnig í sveitum, sem ættu þó að vera matarkarfa þjóðarinnar.

Jose Labrador er að springa úr reiði er hann sér kýrhúðirnar á veginum. Þetta er verk veiðiþjófa. „Það er eins og þeir séu að segja við okkur: „Við erum að drepa nautgripina þína og hvað með það“,“ segir stórbóndinn við AFP-fréttaveituna og bætir við að gagnslaust sé að tilkynna málið. Hvorki lögregla né yfirvöld í héraðinu geri nokkuð í þessu.

Kjötneysla á hvern íbúa hefur dregist verulega saman í Venesúela.
Kjötneysla á hvern íbúa hefur dregist verulega saman í Venesúela. AFP

Getur ekki sofið lengur af hræðslu

Labrador og aðrir bændur í nautgripahéraðinu San Silvestre í Barinas-fylki segjast búa við stöðugt umsátursástand. Að þeim sæki hústökumenn, menn vopnaðir skotvopnum og eins geri verðlagsstjórn ríkisstjórnarinnar búreksturinn óarðbærann.

„Ég get ekki lengur sofið á búgarðinum af því að ég er hræddur,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Jose Antonio Espinoza, sem á 600 nautgripa hjörð í San Silvestre. „Þeir hafa komið hingað og bundið fólk. Síðan hafa þeir stolið öllu, keðjusögum, vatnsdælum og nautgripum,“ segir Espinoza sem segir enn fremur 74 nautgripum hafa verið stolið af búgarði sínum undanfarið ár.

Kúrekar á hestbaki reka hjörð hans milli bithaga, en þeir geta lítið gert verði þeir fyrir árásum nautgripaþjófa. 

Þegar hrægammar sjást sveima á himnum má líta á það sem eins konar viðvörun um að veiðiþjófar hafi aftur látið til skara skríða. Þegar hrægammarnir komast loks að bráðinni eru hins vegar bara skinnið og beinin eftir. Búið er að fjarlægja allt kjötið sem veiðiþjófarnir selja svo á svarta markaðinum.

Hafa lést um 8,5 kg vegna kreppunnar 

Í skoðanakönnun sem gerð var árið 2016 sögðust þrír fjórðu allra íbúa Venesúela hafa lést að meðaltali um 8,5 kg frá því að efnahagskreppan hófst.

Viðvarandi skortur á kjöti og öðru próteini í borgum ætti að fela í sér tækifæri fyrir bændur að koma kjöti sínu á markað. Staðan er hins vegar sú að framleiðslan verður sífellt minni.

Kjötframleiðsla í Venesúela nemur nú tæplega 40% af kjötneyslu í landinu og er það meira en helmingi minna en fyrir tveimur áratugum. Þá mætti kjötframleiðslan 97% neyslunnar, að því er fram kemur í skýrslu landssambands nautgripabænda í Venesúela.

Kjötneysla á hvern íbúa hefur þá líka dregist verulega saman. Árið 1999 borðaði hver Venesúelabúi um 20 kg af kjöti á ári, í fyrra samsvaraði kjötneyslan 7 kg á hvern íbúa. Þrátt fyrir þennan mikla samdrátt geta bændurnir samt ekki mætt eftirspurninni.

Stefna stjórnvalda hefur að sögn bændanna gert hústökufólk óhrætt við …
Stefna stjórnvalda hefur að sögn bændanna gert hústökufólk óhrætt við að ráðast inn á býli þeirra og taka land eignarhaldi. AFP

2 kg af kjöti jafngilda mánaðarlaunum

„Við förum aftur á bak [...] jafnvel þeir okkar sem eru enn með jarðir vinna eins og skepnur,“ segir Armando Chachin, forseti sambandsins, við AFP.

Chacin hefur varað við að stefna stjórnvalda hafi ekki dregið úr vandanum, heldur hafi hún frekar dregið enn frekar úr vextinum.

30 milljónir manna búa í Vensúela, en nautgripaframleiðslan í landinu nemur samt innan við 10 milljónum nautgripa. Árið 1999 þegar íbúarnir voru 20 milljónir voru nautgripirnir 14 milljónir.

Minnkandi framboð gerir kjötið líka dýrara og í höfuðborginni Caracas kosta 2 kg af kjöti sem nemur einum mánaðarlaunum.

Verða gjaldþrota vegna verðlagsstjórnar

Frá því Hugo Chavez komst til valda sem forseti Venesúela árið 1999 hefur sósíalistastjórnin haldlagt 12,4 milljónir ekra af ræktarlandi að sögn landssambands nautgripabænda.

Á sama tíma hefur hátt olíuverð leitt til þess að meira hefur verið flutt inn af matvælum og hefur landbúnaðurinn liðið fyrir þá þróun. Í efnahagskreppunni nú hefur arftaki Chaves á forsetastóli, Nicolas Maduro, fastsett verð fyrir grunnmatvæli og er verðið oft undir kostnaðarverði. Í kjölfarið hefur fjöldi bænda orðið gjaldþrota.

Verðsetningin þýðir líka að nautgripabændur fá lítið greitt fyrir kjötið sem þeir framleiða. Eftir að hafa eytt árum í að fita stóran nautgrip fá þeir nú rúmar 30.000 kr. fyrir dýrið.

Þar sem búist er við að verðbólga í Venesúela nái milljón prósentum fyrir árslok dugar greiðslan varla fyrir bíldekki. Innrásir sjálftökufólks eru svo annað vandamál.

Rotnandi nautgripahúðir sem liggja á veginum er allt og sumt …
Rotnandi nautgripahúðir sem liggja á veginum er allt og sumt sem er eftir af þremur kúm sem búið er að slátra. Blóðbað á borð við þetta er orðið nokkuð algengt í þeim fylkjum Venesúela þar sem nautgriparækt hefur verið lifibrauð manna í gegnum tíðina. AFP

Fékk land sitt aldrei til baka

Stefna stjórnvalda hefur að sögn bændanna gert hústökufólk óhrætt við að ráðast inn á býli þeirra og taka land eignarhaldi. Þannig réðst vopnaður hópur inn á býli sem ræktaði maískorn í San Silvestre og fór þar ránshendi. „Þeir stálu níu traktorum og þremur þreskivélum. Síðan eyðilögðu þeir húsið,“ segir bóndinn Marisela Febres. „Við urðum að lokum leið á að reyna að kvarta yfir þessu þar sem hvorki þjóðvarðliðar né lögregla gerðu neitt í málinu.“

Atvikið sem Febres lýsti átti sér stað árið 2016 og hún hefur ekki enn endurheimt land sitt. Ríkisrekna jarðastofnunin fullyrti þess í stað að landið hefði verið í notkun og afhenti það hústökufólki fyrr á þessu ári. 

Í landamærabyggðum eru bændur jafnvel enn berskjaldaðri en annars staðar, því þar geta þeir átt von á árásum vopnaðra sveita sem taka þátt í að smygla vopnum eða fíkniefnum.

Gera ekki greinarmun á alidýrum og mjólkurkúm

Í síðasta mánuði tók stjórn Venesúela yfir rekstur fjölda sláturhúsa. Sökuðu yfirvöld eigendur sláturhúsanna um spákaupmennsku og lækkuðu verð um tvo þriðju. Þá hafa fylkisstjórar hliðhollir Maduro sumir krafist þess að bændur selji hluta framleiðslu sinnar á verði sem þeir sjálfur ákveði. Síðan hafa þeir dreift kjötinu til stuðningsmanna sinna á lágu verði.

Það gerir málin svo enn verri að veiðiþjófar gera ekki greinarmun á eldisdýrum og mjólkurkúm sem geta framleitt mjólk í allt að 12 ár, en ein mjólkurkú getur framleitt allt að 4.000 lítra af mjólk á ári.

Þá eiga bændur erfitt með að kaupa útsæði, áburð og jafnvel bólusetningarlyf fyrir gripi sína. „Ef það er engin lyf að fá fyrir fólk, ímyndið ykkur þá hvernig þetta er fyrir dýrin,“ segir Labrador.

„Ég get ekki lengur sofið á búgarðinum af því að …
„Ég get ekki lengur sofið á búgarðinum af því að ég er hræddur,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Jose Antonio Espinoza, sem á 600 nautgripa hjörð í San Silvestre. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert